Hoppa yfir valmynd
17. desember 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Súrnun hafsins ógnar framtíðarhagsmunum Íslendinga

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
svsv2

Íslendingar þekkja betur en nokkur þjóð hversu mikilvægt hafið er viðurværi manna. Án hlýrra hafstrauma sunnan úr Karíbahafi væri eyjan okkar varla byggileg - án auðlinda sjávar hefði vart verið hægt að halda lífi í þjóðinni síðustu 1100 ár. Vísindin sýna okkur að hafið er líka bandamaður okkar jarðarbúa í baráttunni við loftslagsbreytingar, en nýjustu rannsóknir sýna að bandalagið sé við það að bresta.

Undanfarnar aldir hefur umhverfið mótast æ meir af athafnasemi mannsins. Mikil losun koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda hefur m.a. leitt til breytinga á loftslagi jarðar, sem ekki sér fyrir endann á. Við megum þakka hafinu fyrir að neikvæð áhrif þessarar losunar á loftslag jarðar hafa ekki orðið meiri en raun ber vitni. Síðustu 200 árin er nefnilega talið að höfin hafi gleypt um fjórðung þess koldíoxíðs sem mannkynið hefur dælt út. Hafið hefur lengi tekið við - en ekki mikið lengur.

Súrnun sjávar - verri lífskilyrði

Koldíoxíð sem við höfum losað í andrúmsloftið og sjórinn tekið í sig hefur áhrif á efnasamsetningu sjávar. Talið er að sýrustig sjávar hafi lækkað um 0,1 stig á pH-kvarðanum frá því sem það var fyrir iðnbyltingu. Sú tala sýnist ekki stór, en breyting af þessari stærðargráðu getur skipt miklu fyrir lífríki sjávar. Súrari sjór hefur það í för með sér að lífverur eiga erfiðara með mynda stoðvef eða skeljar úr kalki - en þeirra á meðal eru skeldýr og kórallar.

Nú þegar höfum við þurft að sjá á eftir stórum hluta kóralrifja sjávar, en súrnun sjávar mun auka vandann. Kóralrifin eru heimkynni um einnar milljónar plöntu- og dýrategunda, þau eru „regnskógar hafsins“. Ef ekkert er að gert til að hefta losun koldíoxíðs munu þau að líkindum hætta að vaxa fyrir lok aldarinnar. Það er raunveruleg hætta á að kóralrif heimsins deyi á líftíma núlifandi kynslóða.

Framtíðarvá í Norðurhöfum

Eyðing kóralrifjanna er sýnilegasta birtingarmynd loftslagsvárinnar í höfunum. Hún er vandamál mannkyns jafnt sem lífríkisins. Kóralrifin eru hluti af vistkerfi sem sér um hálfum milljarði fólks fyrir fæðu. Þetta fólk treystir á sjóinn, eins og við Íslendingar. Rétt eins og á Íslandi, þá hafa sveiflur í lífkerfi sjávar gríðarleg áhrif á efnahag og afkomu fjölda þjóða í hitabeltinu.

En hví skyldum við Íslendingar hafa áhyggjur af þessarri þróun? Utan hitabeltisins er súrnun sjávar líklega helst vandamál á nyrstu og syðstu hafsvæðum jarðar. Súrnun er um tvöfalt hraðari í kringum Ísland en víðast annars staðar, samkvæmt nýjum rannsóknum. Áhrifin á lífríki Norður-Atlantshafsins eru um margt á huldu - meðal annars vegna þess hversu stutt er síðan farið var að gefa súrnun sjávar gaum. Vísindamenn segja stundum að við þekkjum yfirborð plánetunnar Mars betur en við þekkjum hafsbotninn. Vísindamenn vara nú við að óheft súrnun sjávar geti farið að hamla viðgangi kaldsjávarkóralla, skeldýra og ýmissa tegunda þörunga á komandi áratugum. Hún getur haft veruleg áhrif á vistkerfi hafsins í heild fyrir aldarlok.

Tími skjótra aðgerða

Þótt rannsóknir á súrnun sjávar séu tiltölulega nýjar af nálinni virðist samhengi hennar við styrk koldíoxíðs og athafnir manna vera sterkt og greinilegt. Ég hef engar efasemdaraddir heyrt þess efnis að súrnun sjávar eigi sér ekki stað, eða að afleiðingar hennar séu ekki mikið áhyggjuefni. Ef slíkt efasemdarfólk fyrirfinnst, þá vildi ég óska að það hefði rétt fyrir sér, svo mikill er vandinn sem við stöndum frammi fyrir. En við getum ekki byggt stefnu okkar og aðgerðir á óskhyggju af því tagi.

Ef ekkert er að gert verða höfin súrari um miðja öldina en þau hafa verið í tugmilljónir ára. Afleiðingar þess yrðu geigvænlegar fyrir lífríki sjávar og þann stóra hluta jarðarbúa sem treystir á hafið sem lífsviðurværi sitt. Vísindin segja okkur að betra sé að bregðast við fyrr en síðar. Þegar breytingar eru orðnar á efnasamsetningu sjávar gengur hægt að snúa þeim við. Því þarf að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti til að tryggja að súrnun sjávar verði ekki of mikil og óafturkræf.

Hér dugar ekki að loka augunum og vona það besta. Viðkvæmt lífkerfi sjávar og framtíð barnanna okkar er í húfi.

Verndum loftslagið og hafið

Á næsta ári er von á ítarlegri skýrslu um ástand hafsvæðisins umhverfis Ísland á vegum OSPAR-samningsins um verndun NA-Atlantshafsins. Þótt endanlegar niðurstöður liggi ekki fyrir eru sumar meginniðurstöður skýrslunnar kunnar. Áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi sjávar í norðanverðu Atlantshafi er ein stærsta - ef ekki langstærsta - umhverfisváin sem svæðið stendur frammi fyrir.

Verkið fyrir höndum er stórt, en ekki óyfirstíganlegt. OSPAR-samningurinn er dæmi um svæðisbundna samvinnu til að hafa hemil á mengun af manna völdum. Fjöldi slíkra samninga og stofnana er til og hefur skilað góðum árangri. Íslendingar hafa sjálfir reynslu af því hvernig er hægt að vernda auðlindir sjávar með því að koma á fiskveiðistjórnun sem hefur sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Nú þurfa þjóðir heims að taka höndum saman í loftslagsmálum - ekki einungis til að vernda andrúmsloftið heldur og lífríki hafsins. Sem ráðherra í ríki sem hefur lengi byggt afkomu sína á sjónum geng ég glöð til verka til að tryggja hagsmuni Íslendinga og velferð til framtíðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta