Hoppa yfir valmynd
18. desember 2009 Innviðaráðuneytið

106. Ráðherraráðið samþykkir drög að nýjum reglum um réttindi farþega með hópbifreiðum

Á fundi samgönguráðherra ESB þann 17. desember 2009 náðist sátt um drög að nýrri reglugerð um réttindi farþega með hópbifreiðum. Eins og við var búist bættu ráðherrarnir við möguleikum á undanþágum, auk annarra ákvæða sem líkleg eru til að draga úr áhrifum reglugerðarinnar. Ráðherraráðið fjallaði um drögin eftir að Evrópuþingið hafði komist að samkomulagi um þau.

Helstu átökin á fundi ráðherranna urðu um hve víðtækar hinar nýju reglur ættu að vera. Í upphaflegum tillögum framkvæmdastjórnarinnar var gert ráð fyrir að öll þjónusta hópbifreiða sem starfrækt er samkvæmt áætlun ættu undir nýju reglurnar. Þá var átt við þjónustu sem nær milli landa, er innan lands, innan svæða og jafnvel innan einstakra staða. Í niðurstöðu ráðherraráðsins eru reglurnar takmarkaðri og gefa aðildarríkjum færi á að undanskilja þjónustu sem veitt er innan svæða og á þéttbýlum svæðum. Ekki verður þó hægt að undanskilja slíka þjónustu atriðum eins og mismunun í verði og boðinni þjónustu auk þess að ekki er heimilt að hafna viðskiptavinum vegna fötlunar. Þá geta einstök ríki veitt undanþágur til þjónustu hópbifreiða sem veitt er innanlands og á tilteknum leiðum að hámarki í fimm ár en með endurnýjunarmöguleika einu sinni. Það sama á við um þjónustu sem veitt er og liggur yfir mörk ESB-svæðisins. Þá var veittur tveggja ára aðlögunartími sem þýðir að eftir að reglurnar hafa verið samþykktar líða tvö ár þar til þær taka gildi.

Þeir sem veita  þjónusta sem heyrir undir nýju reglurnar munu skuldbundnir til að veita farþegum rétt á endurgreiðslu andvirðis miða frestist brottför um meira en tvær stundir eða ef ferð er aflýst. Jafnvel með möguleika á að komast þeim að kostnaðarlausu til þess staðar sem þeir komu frá. Þeir eiga hins vegar ekki rétt á bótum umfram þetta. Þetta gæti valdið ágeiningi við Evrópuþingið sem telur að til viðbótar ættu farþegar að fá 50% af miðaverði sem uppbót ef fyrirtækið býður þeim ekki upp á annan ferðamöguleika.

Verði niðurstaðan eins og ráðherraráðið vill verða réttindi farþega sem ferðast með hópbifreiðum minni en þeirra sem ferðast með flugi eða með lest en í þessum geirum veita reglur einnig rétt á bótum sem miðast við hluta af andvirði farmiða. Þá eiga farþegar með hópbifreiðum ekki rétt á gistingu ef seinkun veldur því að þeir þurfa á henni að halda, né öðrum atriðum eins og mat. Þá setti ráðið einnig þak á fjárhæðir sem hægt er að fá vegna tapaðs farangurs og slysa.

Þar sem niðurstaða ráðsins liggur nú fyrir er hægt að hefja aðra umferð viðræðna við Evrópuþingið. Evrópuþingið vill skoða reglugerðardrögin með drögum að reglugerð um réttindi farþega á sjó og skipgengum vatnaleiðum. Það gæti þó valdið því að bætur á réttindum farþega í öðrum hvorum geiranum frestast vegna þess að ekki næst samkomulag um réttindi farþega í hinum.

Þeim sem vilja koma að skoðunum og athugasemdum vegna þessara nýju reglna á framfæri við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið er bent á að gera það gegnum netfangið [email protected]

Sjá nánar í 3884-hefti Europolitics

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta