Hoppa yfir valmynd
18. desember 2009 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á ættleiðingarreglugerð taka gildi

Breytingar á reglugerð um ættleiðingar taka gildi í dag, 18. desember 2009. Miða þær að því að rýmka reglur um ættleiðingar vegna lengri biðtíma eftir börnum, að svo miklu leyti sem unnt er og án þess að gengið sé gegn hagsmunum barnanna. Þannig verði komið til móts við óskir einstaklinga sem vilja ættleiða börn erlendis frá. Breytingarnar varða einkum beiðni um nýtt forsamþykki eftir heimkomu ættleidds barns, undirbúningsnámskeið fyrir kjörforeldra og lengri gildistíma forsamþykkis til ættleiðingar. Við undirbúning að breytingunum var leitað umsagna ættleiðingarfélaganna Íslenskrar ættleiðingar og Alþjóðlegrar ættleiðingar sem og Foreldrafélags ættleiddra barna.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  • að kjörforeldrar geta lagt fram beiðni um nýtt forsamþykki 6 mánuðum eftir heimkomu ættleidds barns, en það voru 12 mánuðir áður,
  • breytt fyrirkomulag varðandi undirbúningsnámskeið fyrir kjörforeldra,
  • lenging á gildistíma forsamþykkis allt þar til væntanlegir kjörforeldrar eru orðnir 49 ára. Þetta gildir fyrir þá, sem eiga mál til meðferðar í upprunaríki en hafa enn ekki fengið barn til ættleiðingar þegar 45 ára aldri er náð.

Þær reglur sem gilda um ættleiðingar á erlendum börnum hér á landi byggjast á sjónarmiðum og grunnreglum Haagsamningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa, sem m.a. á rætur að rekja til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Reglurnar eru sambærilegar við reglur annarra Norðurlanda. Samningar þessir og reglur sem settar eru með skírskotun til þeirra hafa að markmiði að tryggja og vernda hagsmuni þeirra barna sem þurfa á því úrræði að halda, sem millilandaættleiðing er. Meginsjónarmiðið er að millilandaættleiðing sé í eðli sínu verndarúrræði fyrir barn sem felur í sér að barnið fær tækifæri til þess að alast upp í fjölskyldu við ástúð og skilning.

Ofangreind atriði og fleiri sem hafa verið rædd á samráðsfundum með ættleiðingarfélögunum eru útskýrð nánar í bréfi sem dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur sent Íslenskri ættleiðingu, Alþjóðlegri ættleiðingu og Foreldrafélagi ættleiddra barna, sjá hér.

 

 

Sjá reglugerð nr. 996/2009 um breytingu á reglugerð nr. 238/2005 um ættleiðingar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta