Drög að reglugerðum um flugsýningar og fallhlífarstökk til umsagnar
Drög að reglugerðum um flugsýningar og fallhlífarstökk eru nú til umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Þeir sem óska eftir að veita umsagnir um reglugerðirnar hafa frest til 18. janúar og skulu þær sendar á netfagið [email protected].
Reglugerð um flugsýningar
Drög að reglugerð um flugsýningar kemur til með að leysa af hólmi reglugerð nr. 442/1976 um flugsýningar og flugkeppni. Reglugerðin er orðin úrelt og þarfnaðist endurskoðunar með tilliti til nýrra krafna í öðrum reglugerðum, svo sem flugvallareglugerð nr. 464/2007.
Reglugerðardrögin hafa lagastoð í 3. mgr. 76. gr., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 og tekur til hverskonar auglýstra flugsýninga sem opnar eru almenningi og fara fram á íslensku yfirráðasvæði með íslenskum eða erlendum loftförum.
Markmiðið með nýrri reglugerð er að tryggja öryggi þátttakenda í flugsýningum og áhorfenda. Því eru kröfur til hagsmunaðila í nýju reglugerðinni talsvert meiri en í þeirri gömlu. Skilgreind eru tvö ný hugtök í drögunum, þ.e. ,,skipuleggjandi flugsýningar" og ,,stjórnandi flugsýningar" og settar fram kröfur til þessara aðila, meðal annars um upplýsingagjöf. Sækja þarf um leyfi til Flugmálastjórnar Íslands að minnsta kosti þremur vikum fyrir fyrirhugaða flugsýningu og skila umbeðnum gögnum.
Öryggiskröfur eru í samræmi við kröfur í flugvallarreglugerð frá árinu 2007. Gerðar eru auknar kröfur til stjórnenda skráðra loftfara samkvæmt reglugerðardrögunum.
Við endurskoðun reglugerðarinnar voru hafðar til hliðsjónar breskar reglur um flugsýningar og sérstaka viðburði (CAP 403) og leiðbeiningar frá JAA um skipulagningu og stjórnun flugsýninga sem og reglugerðir um flugsýningar frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Flugmálastjórn hefur jafnframt útbúið nýtt umsóknareyðublað og leiðbeiningar sem verður birt þegar ný reglugerð tekur gildi.
Með nýrri reglugerð er ætlunin fyrst og fremst að setja skýrari reglur til að auðvelda skipulagningu flugsýninga. Því ættu áhrifin hvorki að vera veruleg né hafa í för með sér aukinn kostnað. Breytingarnar felast umfram allt í auknum kröfum á skipuleggjendur og stjórnendur flugsýninga varðandi skipulag og öflun gagna. Eins og fyrirkomulagið hefur verið þá hefur Flugmálastjórn spilað stærra hlutverk í öflun gagna en eðlilegt er og því er með þessum breytingum gert ráð fyrir að skipuleggjendur undirbúi umsóknir sínar betur en áður hefur verið.
Reglugerðardrögin hafa þegar verið kynnt fyrir ýmsum hagsmunaaðilum s.s. Flugmálafélagi Íslands, Þristavinafélaginu, lögreglustjóranum í Reykjavík, Flugstoðum ohf. og helstu flugskólum.
Reglugerð um fallhlífarstökk
Drög að endurskoðaðri reglugerð um fallhlífarstökk fellir úr gildi reglugerð nr. 440/1976 sama efnis, með síðari breytingum. Reglugerðin hefur lagastoð í 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998.
Markmið reglugerðarinnar er að kveða á um þær lágmarksreglur sem gilda um fallhlífarstökk svo hægt sé að tryggja öryggi þátttakenda og almennings. Reglugerðin tekur til fallhlífarstökks sem fram fer á íslensku yfirráðasvæði með íslenskum eða erlendum loftförum í samræmi við lög um loftferðir nr. 60/1998 ásamt síðari breytingum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
Í reglugerðinni koma fram skýrar kröfur til stökkstjóra, fallhlífastökkvara (meðal annars varðandi réttindi til stökka á sýningum/samkomum, útbúnað og atgervi), loftfars sem og stjórnanda loftfarsins.
Sækja þarf um heimild til fallhlífarstökks á sýningum eða samkomum til Flugmálastjórnar Íslands með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara og skila þarf umbeðnum gögnum með umsókninni.
Við endurskoðun eldri reglugerðar voru reglur Fallhlífarsambands Íslands (FALLÍS) hafðar til hliðsjónar. Þá voru einnig hafðar til hliðsjónar reglur frá bresku fallhlífarsamtökunum og reglur um fallhlífastökk frá Fédération Aéronautique Internationale (FAI Sporting Code).
Áhrif reglugerðarinnar beinast að mestu leyti að FALLÍS eins og sakir standa og stökkstjórum/fallhlífarstökkvurum sjálfum. Kostnaður við setningu reglugerðarinnar er metinn óverulegur.
Flugmálastjórn Íslands hefur nú þegar kynnt efni reglugerðardraganna fyrir FALLÍS sem kom að sínum athugasemdum við drögin. Reglugerðardrögin hafa tekið nokkrum breytingum síðan.
Óskað er eftir því að umsagnir um framangreindar reglugerðir berist ráðuneytinu eigi síðar en 18. janúar næstkomandi á netfangið [email protected].