Ræða umhverfisráðherra á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hélt í nótt ræðu fyrir Íslands hönd á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Hún sagði að lausn loftslagsmála þyrfti á hnattrænu samkomulagi að halda, sem væri lagalega bindandi fyrir alla. Ísland væri tilbúið að taka á sig umtalsverðan niðurskurð á losun gróðurhúsalofttegunda á komandi árum í samvinnu við önnur ríki. Í samvinnu við Evrópusambandið myndi Ísland vinna að markmiði um að minnka losun um allt að 30% til 2020, miðað við 1990, að því gefnu að metnaðarfullt alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum náist.
Umhverfisráðherra benti á þá ógn sem losun gróðurhúsalofttegunda hefði í för með sér fyrir höfin. Súrnun hafanna væri dulinn vandi, sem gæti haft alvarleg áhrif á lífríki hafsins, sem væri áhyggjuefni fyrir land sem byggði á auðæfum hafsins. Vinna þyrfti að lausn vandans og reyna að halda hlýnun lofthjúpsins innan við 2 gráður frá því fyrir iðnbyltingu.
Umhverfisráðherra sagði að Ísland stefndi að því að verða loftslagsvænt ríki. Nú þegar sæju endurnýjanlegir orkugjafar Íslendingum að fullu fyrir rafmagni og hita og stefnt væri að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis fyrir bíla og skip. Skógrækt og landgræðsla væru mikilvægar aðgerðir í loftslagsmálum. Endurheimt skóga og votlendis væru leiðir til að efla líffræðilega fjölbreytni, auk loftslagsávinningsins.
Umhverfisráðherra sagði að Ísland myndi aðstoða þróunarríki við að efla aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og laga sig að afleiðingum þeirra. Nýstofnaður Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, auk Jarðhitaskóla S.þ., væru hornsteinar í viðleitni Íslands í þessu sambandi. Ráðherra benti á mikilvægi þess að virkja alla í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Virkja þyrfti konur á öllum sviðum ákvarðanatöku og aðgerða. Jafnrétti kynjanna í þessu samhengi væri ekki aðeins spurning um réttlæti og sanngirni, heldur væri það nauðsynlegt til að ná árangri.
Í lokaorðum sínum sagði umhverfisráðherra: „Ísland kemur hingað til Kaupmannahafnar til að kynna metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vilja til að taka þátt í öflugu alþjóðlegu samkomulagi til að draga úr loftslagsbreytingum. Augu heimsins hvíla á okkur.
Tíminn er að renna út. Við yfirgefum Kaupmannahöfn brátt. En loftslagsvandinn er ekki á förum. Ábyrgð okkar fylgir okkur heim. Við verðum að skapa traust. Við eigum öll erfitt starf fyrir höndum. Leiðtogar, ríkisstjórnir og allir íbúar jarðar. Vinnum að loftslagsvænni framtíð og sjálfbærri þróun. Vinnum saman að betri jörð. Börn framtíðarinnar munu leggja dóm á gjörðir okkar.“