Hoppa yfir valmynd
21. desember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stefnt að betri þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um að sett verði á fót framkvæmdanefnd um málefni heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um að sett verði á fót framkvæmdanefnd um málefni heyrnarlausra og heyrnarskertra. Nefndinni verður ætlað að greina stöðu heyrnarlausra og heyrnarskertra, m.a. á grundvelli fyrirliggjandi gagna og stefnumótandi álits um stöðu táknmálsins; að koma með tillögur að samhæfðri þjónustu við þennan hóp og leggja til nauðsynlegar lagabreytingar.

Málefni heyrnarlausra og heyrnarskertra falla undir málefnasvið þriggja ráðuneyta mennta- og menningarmálaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Ábyrgð á þjónustu við þennan hóp hefur verið dreifð í stjórnsýslunni og ítrekað komið fram ábendingar um skort á samhæfingu um framkvæmd þjónustunnar. Undir heilbrigðisráðuneytið heyrir Heyrnar- og talmeinastöð og undir mennta- og menningarmálaráðuneyti fellur Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálayfirvalda er veitt margskonar þjónusta m.a. á grundvelli laga um málefni fatlaðra. Vegna málaflokksins renna ennfremur fjármunir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á skólagöngu heyrnarlausra og heyrnarskertra nemenda í leik- og grunnskóla og þjónustu við þá en ríkið vegna náms í framhaldsskóla og sérhæfðari greiningar- og sérfræðiþjónustu.

Framkvæmdanefnd um málefni heyrnarlausra og heyrnarskertra skal koma með tillögur á vordögum 2010. Nefndin mun starfa undir forystu mennta- og menningarmálaráðuneytis með fulltrúum frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Félagi heyrnarlausra. Gert er ráð fyrir að ráðinn verði sérstakur verkefnisstjóri sem starfi með framkvæmdanefndinni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta