Ýmsar lagabreytingar á sviði samgöngumála
Fern lagafrumvörp sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði fyrir Alþingi í haust urðu að lögum um helgina og í dag. Fjalla þau um fjarskipti, áhafnir skipa, vitamál, Siglingastofnun Íslands og samruna Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf.
Með lögum um breytingar á fjarskiptalögum nr. 81/2003er annars vegar verið að lækka álagningarhlutfall jöfnunargjalds í jöfnunarsjóð alþjónustu og hins vegar að innleiða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins um breytingar á reglugerð um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins. Með reikireglugerðinni voru settar skýrar reglur á þessu sviði með það að markmiði að sameiginlegri nálgun væri beitt innan EES til að tryggja að notendur almennra farsímaneta borgi ekki óhófleg verð fyrir reikisímtöl innan EES.
Breytingar á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa hafa þann tilgang að efla öryggi áhafna frístundafiskiskipa og setja reglur um slík skip. Þau skip eru nánar skilgreind í lögunum auk þess sem gerðar eru ákveðnar kröfur um hæfi þeirra sem stjórna slíkum skipum og að eigandi frístundafiskiskips beri ábyrgð á því að stjórnendur hafi fullnægjandi réttindi á skipið. Einnig er kveðið á um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um frístundafiskiskip í reglugerð.
Breyting á vitalögum felur í sér hækkun vitagjalds í samræmi við verðlagsbreytingar og þróun gengis frá því að gjaldið var hækkað með lögum árið 2002. Erlend skip greiða nú um 85% af vitagjaldi og mun hækkunin því að mestu varða þau en lágmarksgjaldið smábátaflotann. Jafnframt er lagt að 6. gr. laganna verði breytt á þann veg að vitagjaldið megi ekki einungis nota í verkefni skv. 2. gr. laganna heldur til að standa straum af kostnaði við rekstur Siglingastofnunar Íslands og framkvæmdir á hennar vegum.
Þá var samþykkt breyting á lögum um Siglingastofnun Íslands en henni er ætlað að gera skýrari lagaákvæði um gjaldtöku stofnunarinnar þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu henni er heimilt að taka gjald.
Í dag varð einnig að lögum frumvarp um heimild til handa samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að sameina opinberu hlutafélögin Flugstoðir og Keflavíkurflugvöll á næsta ári í nýtt opinbert hlutafélag.
Af öðrum frumvörpum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem nú eru til meðferðar á Alþingi má nefna frumvarp um rannsókn samgönguslysa, um lögskráningu sjómanna og um eftirlit með skipum.
Sjá nánar á vef Alþingis um nýsamþykkt lög.