Staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts og útsvars og persónuafsláttur fyrir árið 2010
Fréttatilkynning nr. 83/2009
Helstu atriði:
- Þriggja þrepa tekjuskattkerfi tekið upp um áramót.
- Meðalútsvarshlutfall sveitafélaga verður 13,12% á nýju ári.
- Staðgreiðsluhlutfall verður í þremur þrepum, 37,22%, 40,12% og 46,12%.
- Upplýsingasíða með reiknivél verður opnuð á vegum Ríkisskattstjóra upp úr áramótum.
- Persónuafsláttur verður 44.205 kr. og skattleysismörk 124 þ.kr.
Alþingi samþykkti nýverið lög um tekjuöflun ríkisins sem fela í sér margvíslegar breytingar á gildandi lögum um tekjuskatt. Meðal þeirra er að á árinu 2010 verður í fyrsta sinn innheimt þrepaskipt staðgreiðsla á tekjuskatti í þremur þrepum.
Staðgreiðsluhlutfall ársins 2010
Lögum samkvæmt auglýsir fjármálaráðuneytið árlega staðgreiðsluhlutfall opinberra gjalda fyrir komandi ár, en það er samtala af tekjuskatthlutfalli samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og meðalhlutfalli útsvars samkvæmt ákvörðunum sveitarfélaga á grundvelli laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
Með nýjum lögum verður tekjuskattur lagður á í þremur þrepum. Þrepin skiptast þannig að af fyrstu 2,4 m.kr. árstekjum einstaklings (þ.e. 200 þ.kr. á mánuði) er reiknaður 24,1% skattur. Af næstu 5,4 m.kr. (450 þ.kr. á mánuði) er reiknaður 27% skattur og síðan í þriðja þrepi 33% skattur af árstekjum umfram 7,8 m.kr. (650 þ.kr. á mánuði) hjá einstaklingi.
Meðalútsvar á árinu 2010 verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga 13,12% í stað 13,1% á árinu 2009. Staðgreiðsluhlutfall ársins 2010 verður samkvæmt því þríþætt eftir fjárhæð tekna, þ.e. 37,22% á tekjur sem nema 200 þ.kr. og lægri á mánuði, 40,12% á tekjur yfir 200 og allt að 650 þ.kr. á mánuði og síðan 46,12% á tekjur umfram 650 þ.kr. á mánuði hjá hverjum einstaklingi.
Sveitarfélögin geta, samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga, ákveðið útsvar á bilinu 11,24% til 13,28%. Af 77 sveitarfélögum leggja 61 á hámarksútsvar, þar af nýtir eitt þeirra sérstakt 10% álag sem þýðir að útsvarshlutfallið verður 14,61% og annað sérstakt 5% álag sem þýðir að útsvarshlutfallið verður 13,94%. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Ekkert sveitarfélag lækkar útsvarshlutfallið frá því sem var á árinu 2009 en sjö sveitarfélög hækka það.
Staðgreiðslan er bráðabirgðagreiðsla, en endanleg ákvörðun tekjuskatts og útsvars fer fram við álagningu opinberra gjalda hinn 1. ágúst ár hvert. Engu að síður er brýnt að afdráttur í staðgreiðslu sé með sem réttustum hætti svo ekki þurfi að koma til íþyngjandi leiðréttinga við álagningu opinberra gjalda. Til þess að það markmið náist þarf launamaður að upplýsa launagreiðanda um það hvort hann starfi hjá fleiri en einum aðila þannig að unnt sé að beita réttu staðgreiðsluhlutfalli. Komi hins vegar í ljós að staðgreiðsla hefur verið vangreidd innan ársins getur launþegi greitt það sem á vantar til þess að komast hjá greiðslu álags sem að öðrum kosti er ákvarðað við álagningu.
Heimilt verður að skattleggja hluta tekna maka í miðþrepi í stað efsta þreps hafi tekjulægri makinn ekki nýtt miðþrepið að fullu, þó að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þegar sýnt þykir að heimild til slíkrar millifærslu hafi skapast geta samskattaðir aðilar óska eftir endurreikningi á þeirri staðgreiðslu sem innt hefur verið af hendi og jafnframt endurgreiðslu hennar reynist staðgreiðslan of há. Slík endurgreiðsla getur þó ekki komið til fyrr en á síðasta ársfjórðungi og aldrei numið lægri fjárhæð en 50 þ.kr. eða hærri fjárhæð en 100 þ.kr.
Upplýsingasíða Ríkisskattstjóra
Nánari upplýsingar um framangreindar breytingar og áhrif þeirra verður að finna á upplýsingasíðu RSK fljótlega á nýju ári. Þar mun einstaklingum, launagreiðendum og öðrum gefast tækifæri á að kynna sér breytingarnar nánar, meðal annars með notkun á sérstakri reiknivél.
Persónuafsláttur og skattleysismörk
Samkvæmt nýsamþykktum lögum verður persónuafsláttur hvers einstaklings 530.466 krónur fyrir árið í heild, eða 44.205 krónur að meðaltali á mánuði í stað 42.205 króna á þessu ári. Hækkunin milli ára er 2.000 krónum á mánuði eða 24.000 kr. á ári.
Skattleysismörk, sem eru liðlega 118 þ.kr. á mánuði á árinu 2009 verða tæplega 124 þ.kr. á mánuði frá og með 1. janúar 2010 (að teknu tilliti til 4% lífeyrissjóðsiðgjalds). Hækkunin er 4,7% eða um 6.000 kr. á mánuði. Þetta þýðir svo dæmi sé tekið að skattgreiðslur einstaklings með allt að rúmlega 280 þ.kr. mánaðarlaun eru lægri eða þær sömu fyrir og eftir áramót að teknu tilliti til 4% lífeyrissjóðsiðgjalds og 40,12% staðgreiðsluhlutfalls á tekjur umfram 200 þ.kr. á mánuði.
Reykjavík, 23. desember 2009