Endurskoðun sveitarstjórnarlaga hafin
Hafin er endurskoðun á sveitarstjórnarlögum á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, hefur verið ráðinn verkefnisstjóri starfshóps sem ráðherra hefur skipað til verksins.
Gildandi sveitarstjórnarlög, nr. 45/1998, eru frá árinu 1998 og er tímabært að huga að endurskoðun þeirra í ljósi fenginnar reynslu, breyttra þjóðfélagsaðstæðna og lagaþróunar í nágrannaríkjum. Meginmarkmið slíkrar vinnu er að lögin skapi fullnægjandi umgjörð og stuðning við kjörna fulltrúa og stjórnsýslu sveitarfélaga, tryggi íbúum tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum og tryggi ábyrga og rétta framkvæmd sveitarstjórnarmála.
Þá verður einnig lögð áhersla á að endurskoðun lagaákvæða sem snerta fjármál sveitarfélaga, eftirlit og upplýsingar með fjármálum þeirra en allir kaflar laganna verða teknir til skoðunar og endurmats.
Verkefið tengist einnig áformum ríkisstjórnarinnar um eflingu sveitarstjórnarstigins eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og við framkvæmd þess er mikilvægt að horfa til breytinga og/eða tillögugerðar sem á sér stað í því sambandi.
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað fimm manna starfshóp til verksins. Fulltrúar ráðherra í hópnum eru Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi þingmaður, og Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Hrunamannahrepps. Tveir eru fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, þau Björk Vilhelmsdóttir og Guðjón Bragason. Þá mun Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur á sveitarstjórnarskrifstofu ráðuneytisins starfa með hópnum.