Ársskýrsla OSPAR komin út
Nýlega kom út ársskýrsla OSPAR-samningsins sem fjallar um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Í skýrslunni er farið yfir meginviðfangsefni samningsins og þann árangur sem hefur náðst að undanförnu.
OSPAR-samningurinn er mikilvægur umhverfisverndarsamningur þar aðildarríki hans skuldbinda sig til að koma í veg fyrir og útrýma mengun frá landi, mengun af völdum varps eiturefna í hafið eða brennslu úrgangsefna og einnig að því að vernda vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni hafsins. Fyrir ríki eins og Ísland, sem byggir afkomu sína að miklu leyti á hafinu, skipta samningar á borð við OSPAR miklu máli.
Á árinu sem leið unnu vísindamenn OSPAR-samningsins að stórri skýrslu um mat á ástandi hafsins sem koma mun út síðar á þessu ári og án efa vekja mikla athygli. Aðildarríkin hafa einnig í mörg undanfarin ár, unnið að stofnun alþjóðlegs verndarsvæðis hafsins á Charlie-Gibbs brotabeltinu sem liggur þvert á Atlantshafshrygginn og teygir sig frá Nýfundnalandi til Írlands. Svæðið hefur mikið verndargildi og yrði fyrsta alþjóðlega verndarsvæðið í heiminum sem liggur utan lögsögu ríkja. Stefnt er að stofnun svæðisins í september 2010.
Árangur af starfi OSPAR-samningsins í mengunarvörnum kemur sífellt betur í ljós en athygli vekur hversu lengi efni finnast í andrúmslofti og úrkomu þrátt fyrir áralangt bann við notkun. Þannig finnast enn leifar af skordýraeitrinu Lindane í úrkomu á OSPAR-svæðinu, þó bann hafi verið lagt við notkun þess í Evrópu fyrir mörgum árum. Efnið finnst í mjög litlum mæli á Íslandi og fer styrkur þess minnkandi eins og á flestum stöðum í Evrópu.
Ársskýrslu OSPAR-samningsins má nálgast á rafrænu formi á heimasíðu samningsins.