Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2010 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010 um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Í frumvarpinu er lagt til að svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en fyrsta laugardaginn í mars nk. skuli almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort fyrrgreind lög nr. 1/2010 eigi að halda gildi eða falla úr gildi. Dómsmálaráðherra er falið að höfðu samráði við landskjörstjórn að taka ákvörðun um dagsetningu atkvæðagreiðslunnar.

Í ræðu sinni sagði dómsmálaráðherra að þrjár dagsetningar virðist koma til greina verði frumvarpið að lögum: 20. febrúar, 27. febrúar eða 6. mars. Við þá ákvörðun þurfi m.a. að taka tillit til þess að tími til utankjörfundaratkvæðagreiðslu sé nægur. Fjöldi þeirra Íslendinga sem búsettur sé erlendis og sem rétt hafi til að kjósa í þessum kosningum sé um 10 þúsund. Koma þurfi kjörgögnum til um 140 staða erlendis og eins þurfi að gefa tíma fyrir kjósendur erlendis til að neyta kosningaréttar síns og koma atkvæði sínu til Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar taki, eftir því sem við á, mið af því kosningakerfi sem fyrir er. Byggir frumvarpið þannig í meginatriðum á sömu skipan og kemur fram í lögum um framboð og kjör forseta Íslands nr. 36/1945 og lögum um kosningar til alþingis nr. 24/2000 enda er í hinum fyrrgreindu lögum gert ráð fyrir að um forsetakjör gildi ákvæði laga um kosningar til alþingis að svo miklu leyti sem sérreglna er ekki þörf.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum