Forsætisráðherra ræðir við starfsbræður
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur í dag rætt við Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, um stöðu mála hér á landi í kjölfar synjunar forseta Íslands á breytingu á lögum nr. 96/2009 með síðari breytingum.
Áður hafði forsætisráðherra rætt við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, og á morgun er fyrirhugað samtal við Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, um þetta efni.
Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir óskaði eftir skilningi landanna á því aukna svigrúmi sem Ísland þyrfti til að tryggja farsælar lyktir Icesave-málsins. Ráðherrarnir lýstu yfir vonbrigðum með þróun mála en lýstu jafnframt allir yfir vilja til áframhaldandi samstarfs við íslensk stjórnvöld í þeirri erfiðu stöðu sem upp væri komin. Ráðherrarnir sammæltust um að vera í frekari samskiptum næstu daga ef tilefni gæfust til vegna einstakra álitamála og næstu skrefa í málinu.