Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 2/2010 - Breyting á reglum er lúta að uppboði á ísfiski sem fyrirhugað er að flytja á markað erlendis og úrtaksvigtun afla á fiskmarkaði.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. maí 2009 kemur fram að knýja eigi á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.

Þann 8. desember 2009 kynnti Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að frá og með áramótum 2009/2010 skyldi botnfiskafli sem fluttur er óunninn á markað erlendis, án þess að hafa verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu, reiknaður með 5% álagi til aflamarks. Jafnframt kynnti hann að unnið væri að breytingum á reglum er lúta að vigtun sjávarafla hjá fiskmörkuðum og að settar yrðu frekari reglur um uppoð afla sem fyrirhugað er að flytja á markað erlendis, sem fram fer á s.k. Fjölneti, í þeim tilgangi að stuðla að því að viðskipti með þennan afla verði hér innanlands.

Nú hafa breytingar verið gerðar á reglugerð nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla og reglugerð nr. 910/2001, um skýrsluskil vegna viðskipta með afla, auk þess sem ný auglýsing hefur verið gefin út um reglur um lágmarksúrtak og framkvæmd vigtunar við úrtaksvigtun. Þá hefur auglýsing nr. 768/1998, um reglur um lágmarksúrtak við úrtaksvigtun samhliða verið felld úr gildi.


Helstu breytingar sem gerðar hafa verið varðandi afla sem fyrirhugað er að flytja óvigtaðan á markað erlendis eru eftirfarandi:

1.      Hámarksfjöldi kara í hverri stæðu sem boðin eru upp á Fjölneti verða 15 kör.

2.      Við uppboð á Fjölneti skulu þorskur, ýsa og karfi boðin upp sérstaklega.

3.      Afli sem keyptur er á Fjölneti er óheimilt að flytja óunnin úr landi.

4.      Skýrsluskil kaupenda afla á Fjölneti þar sem gerð er grein fyrir ráðstöfun afla verður tíðari en almennt gerist.

Þá mun Fiskistofa vinna að framsetningu upplýsinga á vef sínum um verð á afla á mörkuðum erlendis til að auðvelda samanburð við uppsett verð á afla sem boðinn er upp á Fjölneti.

Breytingar á fyrrgreindum reglum fela ennfremur í sér að fiskmarkaðir hér á landi fá heimild til að úrtaksvigta afla með þeim hætti, að hvert kar er brúttóvigtað sérstaklega sem leiðir til þess að lágmarksfjöldi kara í úrtaki fækkar nokkuð frá því sem verið hefur.

Með þessu móti vonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, að ofangreint markmið nái fram að ganga og að tryggt verði betra aðgengi íslenskra fiskvinnslna að íslenskum fiski.

 

Reglugerðirnar má sjá hér:

Auglýsing um reglur um lágamarksúrtak og framkvæmd vigtunar við úrtaksvigtun.

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðar breytingum.

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 910/2001, um skýrsluskil vegna viðskipta með afla, með síðari breytingum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta