Ný námstækifæri fyrir unga atvinnuleitendur
Mennta- og menningarmálaráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið hafa undirritað samkomulag um námstækifæri á framhaldsskólastigi fyrir unga atvinnuleitendur. Samkomulagið er gert í framhaldi af sameiginlegri skýrslu ráðuneytanna: Ungt fólk án atvinnu – virkni þess og menntun en skýrsluna er meðal annars finna á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Samkomulag ráðuneytanna felur í sér að stefnt er að því að fjölga námsúrræðum með því annars vegar að fjölga námsplássum á núverandi námsbrautum og hins vegar með því að þróa ný námsúrræði. Vinnumálastofnun er heimilað að semja við framhaldsskóla um námsvist á núverandi námsbrautum fyrir fólk á aldrinum 18-24 ára sem eru án atvinnu og tryggt innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Mennta- og menningarmálaráðuneytið stofnar stýrihóp sem setur viðmið fyrir skipulag nýrra námsbrauta og annast samskipti við framhaldsskóla um uppbyggingu námsbrauta til framhaldsskólaprófs.
„Ég vona að þetta samkomulag verði til þess að við getum komið betur til móts við ungt fólk án atvinnu. Það er mikilvægt, bæði fyrir einstaklingana og samfélagið allt,“ segir Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.