Tillaga um dómaraefni af Íslands hálfu við Mannréttindadómstól Evrópu
Á fundi ríkisstjórnar í morgun var samþykkt tillaga Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra um að tilnefna Davíð Þór Björgvinsson, núverandi dómara við Mannréttindadómstólinn, Hjördísi Björk Hákonardóttur hæstaréttardómara og Pál Hreinsson hæstaréttardómara, sem dómaraefni af Íslands hálfu við Mannréttindadómstól Evrópu.
Mannréttindadómstóllinn er skipaður einum dómara frá hverju samningsríkja og er hver dómari skipaður til sex ára í senn. Kjörtímabil íslensks dómara við dómstólinn rennur út 31. október 2010 og fór Evrópuráðið því þess á leit við dómsmála- og mannréttindaráðuneytið að tilnefnd yrðu af Íslands hálfu þrjú dómaraefni. Samkvæmt 22. gr. mannréttindasáttmálans sbr. lög nr. 62/1994 eru dómarar við Mannréttindadómstólinn kjörnir af þingi Evrópuráðsins, af lista með þremur mönnum sem samningsaðili tilnefnir. Sérstök athygli er vakin á því að taki viðauki nr. 14 við Mannréttindasáttmálann gildi áður en kosning dómara fer fram í apríl 2010 mun kjörtímabil þess dómara er nú situr framlengjast um þrjú ár eða til 2013.
Alls óskuðu fimm eftir því að vera tilnefndir en það voru, auk ofangreindra, Sif Konráðsdóttir, fulltrúi (officer) hjá Eftirlitsstofnun EFTA, og Skúli Magnússon, ritari EFTA-dómstólsins.