Ráðherra opnaði nýja skoðunarstöð Frumherja
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórrnarráðherra, opnaði í dag formlega nýja skoðunarstöð Frumherja við Hólmaslóð í Reykjavík. Er það sjöunda stöð fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu.
Í stöðinni verður boðið uppá skoðun fólksbíla, sendibíla og minni vörubíla svo og felli- og hjólhýsa. Í ávarpi við opnun stöðvarinnar sagði ráðherra samgönguyfirvöld leggja mikla áherslu á vandaða skoðun ökutækja. Ef öryggisbúnaður ökutækis væri ekki í fullkomnu lagi gæti það verið varasamt í umferðinni. Hann minnti á hertar reglur um að færa ökutæki til skoðunar að viðlögðum álagi á skoðunargjald. Í lokin óskaði hann forráðamönnum Frumherja til hamingju með þennan nýja áfanga.
Kristján L. Möller klippti á borða ásamt Orra Hlöðverssyni, framkvæmdastjóra Frumherja, og ók síðan fyrsta bílnum, Chevrolet Bel Air árgerð 1956, gegnum stöðina ásamt Karli Sigurðssyni.