Nr. 3/2010 - Verndun grunnslóðar
Sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason hefur ákveðið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að setja af stað verkefni þar sem kannaðir verði kostir þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er. Markmiðið er að treysta grunnslóðir sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvæna veiði. Í þessu felst að við veiðar og nýtingu verði gætt að verndun sjávarbotnsins og beitt vistvænum veiðiaðferðum.
Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu liggja fyrir margvíslegar ályktanir og jafnvel undirskriftalistar um verndun grunnslóðar frá ýmsum aðilum og sveitarfélögum út um land allt. Eru þær með ýmsu móti en flestar ganga út á að ákveðin svæði eða heilu firðirnir verði verndaðir fyrir afkastamiklum veiðarfærum sem geta skaðað umhverfið. Jafnvel hafa verið sett fram svo róttæk sjónarmið að lagt er til að allt svæðið umhverfis landið innan 3-4 sjómílna verði verndað með þessum hætti.
Það er viðamikið verkefni að afla upplýsinga um veiðar á grunnslóð og innan flóa og fjarða og þróun þeirra s.l. aldarfjórðung. Margs konar reglugerðir um veiðarfæri, veiðitíma, skipastærðir, afl, veiðisvæði o.fl. hafa verið í gildi á þessum tíma. Aðferðir og eftirlit með veiðum er margvíslegt og skyndilokunum veiðisvæða beitt í meira mæli nú en áður var. Miklar upplýsingar eru til í gagnabönkum Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskistofu sem vinna þarf úr með ýmsum samanburði upplýsinga. Skoða þarf staðbundin gögn um veiði innan flóa og fjarða sem og tillögur landssamtaka og svæðisfélaga um breytingar. Líklegt er að tiltekin viðkvæm svæði verði sett í forgangsröð í þessu tilliti.
Skoðað verður sérstaklega hvernig önnur ríki haga veiðum á grunnslóð og hvaða tækjum þau beita til veiðistjórnunar.
Vinna að upplýsingaöflun er þegar hafin í ráðuneytinu og hefur Guðjóni Arnari Kristjánssyni verið falin umsjón með verkefninu innan auðlindadeildar ráðuneytisins. Síðan verður skipaður starfshópur til að fjalla um verkefnið.
Það er stefna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar að sjálfbær og siðferðilega ábyrg nýting lífrænna auðlinda hafsins verði ætíð höfð að leiðarljósi við stjórn fiskveiða og er þetta verkefni skipulagt með það að leiðarljósi.