Nr. 4/2010 - Úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna sumarið 2009
Strandveiðar voru heimilaðar með lögum nr. 66 þann 19. júní 2009 um breytingu á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og hófust þær þann 28. júní 2009. Með lögunum var gefin heimild til veiða á 3.955 tonnum af óslægðum þorski á handfæri yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst. Landinu var skipt upp í fjögur afmörkuð löndunarsvæði og var hverju svæði úthlutað hlut af heildarþorskaflaheimildinni. Grunnhugmyndin fólst í að setja á fót frjálsar handfæraveiðar meðfram ströndinni. Þessi nýi flokkur veiða fékk síðan heitið „strandveiðar“ og var hugsaður sem frjálsar en ábyrgar og sjálfbærar veiðar sem myndu greiða fyrir nýliðun í sjávarútvegi en jafnframt efla atvinnu og líf í sjávarbyggðum landsins.
Frá upphafi var lögð áhersla á að verkefnið væri tilraunaverkefni sem ætlunin var að fylgja eftir og draga lærdóm af. Í því sambandi lýsti Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra því yfir að leitast yrði við að nýta þá þekkingu og reynslu sem byggi hjá hinum dreifðu sjávarbyggðum landsins. Að þessu gefnu ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að hafa samband við Háskólasetur Vestfjarða og leita til þess um gerð úttektar á veiðunum. Háskólasetur hóf í kjölfarið undirbúning að úttektaráætlun með fyrrgreind markmið að leiðarljósi. Úttektin var framkvæmd á tímabilinu september-desember og komu 5 þekkingar- og fræðamiðstöðvar á landsbyggðinni ásamt Háskólasetrinu að úttektinni. Samanlagður fjöldi sem tók þátt í úttektinni (kom að undirbúningi, framkvæmd og svörun spurningalista) telur yfir 300 manns.
Í heild er það niðurstaðan að strandveiðarnar hafi gengi vel þó svo að aflabrögð hafi verið misgóð og afrakstur ólíkur á svæðunum fjórum. Veiðarnar komu best út á svæðum A, Eyja- og Miklaholtshreppur – Skagabyggð, og C, Þingeyjarsveit – Djúpavogshreppur. Lakari útkoma var fyrir svæði B, Sveitarfélagið Skagafjörður – Grýtubakkahreppur og D. Sveitarfélagið Hornafjörður – Borgarbyggð.
Mikil ánægja er meðal strandveiðimanna með veiðarnar og fyrirkomulag þeirra. Styðja þeir langflestir að haldið verði áfram með þær. Þó tilfinningar séu blendnari meðal annarra hagsmunaaðila er þó meirihlutinn á því að strandveiðarnar geti verið leið til að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins.
Markmiðin með veiðunum hafa að miklu leyti náðst. Það er þó sett fram með fyrirvara þar sem markmiðin voru ekki nægjanlega skýrt skilgreind eða sett fram með ákveðin viðmið. Upp úr standa markmiðin um að gefa fleiri en handhöfum kvóta möguleika á takmörkuðum veiðum í atvinnuskyni, nýliðun og að auðvelda fólki að afla sér reynslu og þekkingar. Nýliðar voru 20% í hópi þeirra útgerðarmanna sem svöruðu könnun vegna skýrslunnar. Að auki má búast við að margir nýliðar hafi verið í hópi þeirra 150 einstaklinga sem auk útgerðaraðila skipuðu áhafnir strandveiðibátanna.
Leyfin til veiðanna söfnuðust ekki á fárra hendur og flestir sem koma að veiðunum voru minni útgerðaraðilar sem töldu sig hafa fengið frá nokkrum hundruð þúsund úr veiðunum upp í milljón. Aflaverðmæti meðalbáts voru um 1.550 þúsund krónur. Aflaverðmæti á bát var mest á svæði C eða 2,2 m.kr., næst kom svæði A með 1,8 m.kr.
Veiðarnar náðu að því markmiði að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir landsins og styrkja þær. Áhrif á samfélög þessara minni staða virðast hafa verið mjög jákvæð en ekki eru eins augljós áhrif veiðanna á atvinnulíf.
Niðurstaða úttektarinnar er sú að margt er hægt að læra af þessari frumraun strandveiðanna. Um fyrirkomulag veiðanna virðist að mestu vera sátt um en svæðaskipting og lengd tímabils eru atriði sem vert er að skoða betur. Markmiðum með veiðunum þarf að huga betur að og skilgreina þarf ákveðin viðmið. Sérstaklega á þetta við um markmið um nýliðun og samfélagsleg og hagræn áhrif veiðanna á dreifðar sjávarbyggðir landsins. Með því er einnig töluvert meiri líkur á að sátt skapist um strandveiðarnar.
Miklar upplýsingar liggja að baki úttektinnni og það er von ráðuneytisins líkt og skýrsluhöfunda að hún nýtist sem þekkingargrunnur fyrir endurskoðun á veiðunum og verði til þess að hægt sé að gera sem mest úr hagrænum og samfélagslegum áhrifum veiðanna, sérstaklega á dreifðar sjávarbyggðir landsins.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason tiltekur að næsta skref er að vinna frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða sem lagt verði fyrir Alþingi á næstunni. Tekið verður mið af þeim lærdómi sem hér hefur verið safnað saman við gerð frumvarpsins og allar líkur benda til þess að lagt verði til að strandveiðarnar séu komnar til að vera og því verður ekki lagt til nú að heimild til þeirra verði sett til bráðabirgða líkt og var gert á síðasta ári.
Skýrsla um úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna 2009. (1175 Kb)