Rússneski sendiherrann Hr. Victor I. Tatarintsev kvaddur
Rússneski sendiherrann Hr. Victor I. Tatarintsev er nú á förum frá Íslandi og tekur við öðrum verkefnum í heimalandi sínu sem m.a. felast í því að sinna málefnum Íslands.
Í kveðjuhófi sendiherranns þakkaði Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Victor I. Tatarintsev fyrir fórnfúst starf við að efla og auka samskipti Íslands og Rússlands. Alla tíð sína sem sendiherra á Íslandi hefur Victor I. Tatarintsev verið ötull við að greiða götur Íslendinga og íslenskra stjórnvalda í samskiptum við Rússland. Margt væri hægt að nefna, en sem nýlegt dæmi er hægt að upplýsa að rússnesk og íslensk yfirvöld munu um helgina undirrita samninga um heilbrigðisskoðun og útflutningsleyfi á íslenskum landbúnaðarvörum til Rússlands. Rússlandsmarkaður er vaxandi markaður og mikilvægur vegna útflutnings á íslensku kjöti og kjötafurðum. Victor I. Tatarintsev hefur ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Matvælastofnun og landssamtökum sláturleyfishafa lagt mikla vinnu í að opna þennan markað og veitt ómetanlega hjálp við að fá tilheyrandi leyfi frá til þess bærum yfirvöldum í Rússlandi.
Jón þakkaði Victori fyrir störf sín hér fyrir sína hönd og ráðuneytisins og sagði að samstarfið við hann hafi verið sérlega ánægjulegt og hans yrði sárt saknað.