Gott ár að baki í ferðaþjónustu hér á landi
Umfang íslenskrar ferðaþjónustu óx á síðasta ári þrátt fyrir hnattræna kreppu og versnandi afkomu greinarinnar í Evrópu.
Þennan vöxt má ekki síst rekja til þess að erlendum ferðamönnum fjölgaði frá mörgum helstu mörkuðum skv. talningu Ferðamálastofu í Leifsstöð.
Heildarfjöldi ferðamanna að meðtöldum farþegum skemmtiferðaskipa var árið 2009 0,7% meiri en árið 2008, eða 566 þúsund miðað við 562 þúsund og því má gera ráð fyrir að um sé að ræða stærsta ferðamannaárið á Íslandi frá upphafi.
Langflestir erlendu gestirnir, eða 94%, fóru um Keflavíkurflugvöll, 2,8% um Reykjavíkurflugvöll, 2,8% um Seyðisfjörð og 0,3% um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Farþegar til Íslands með skemmtiferðaskipum voru tæplega 72 þúsund á árinu 2009, 16% fleiri en árinu áður.