Eflum lýðræðið - konur í sveitarstjórn
Kominn er út bæklingurinn Eflum lýðræðið - konur í sveitarstjórn sem Jafnréttisstofa og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gefa út í sameiningu í tilefni af sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Í bæklingnum lýsa átta konur viðhorfum sínum til þátttöku í sveitarstjórnarstörfum og hvetja konur til að láta sig þau varða. Talin eru upp 10 heilræði fyrir stjórnmálaflokka og önnur 10 fyrir konur og birtar eru tölur um hlutfall kynja í sveitarstjórnum.
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skrifar inngangsorð og segir hann þar meðal annars: ,,Velferð íbúa er eitt helsta viðfangsefni sveitarstjórna landsins. Þar fer fram umræða og ákvarðanataka sem varðar daglegt líf okkar. Þess vegna eiga konur erindi í sveitarstjórnir ekki síður en karlar.”
Ráðherra skipaði á síðasta ári starfshóp til að leggja fram tillögur um aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna í sveitarstjórnum. Meðal tillagna var útgáfa bæklings sem nú kemur út í samstarfi við Jafnréttisstofu. Þá hafa verið haldnir fundir með forystumönnum stjórnmálaflokka og fulltrúum ungliðasamtaka þeirra og fleiri aðgerðir eru í undirbúningi.
Sjá bæklinginn: Eflum lýðræðið – konur í sveitarstjórn