Ávarp forsætisráðherra á fundi 20/20 Sóknaráætlunar á Selfossi
Aldrei nóg að pakka bara í vörn
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flutti í morgun ávarp á Selfossi, og sagði að þjóðin þyrfti að líta til landsliðsins í handbolta um fyrirmyndir í vörn og sókn í atvinnu- og efnahagsmálum á næstu árum. Á fundinum voru samankomnir þeir sem unnið hafa að undirbúningi sóknaráætlunar 20/20.
Í ávarpinu minnti forsætisráðhera á tillögu til þingsályktunar sem lögð hefur verið fram þar sem segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirbúa sóknaráætlun til að efla atvinnulíf og samfélag um allt land. Markmiðið er að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Til þess að svo megi verða þurfi að huga sérstaklega að hvernig hægt er að tryggja samkeppnishæfni landsins til lengri tíma.
“Stundum er því haldið fram að þegar staðið er í varnarbaráttu eins og þeirri sem Íslendingar heyja nú vegna skuldavanda ríkissjóðs og yfirstandandi efnahagserfiðleika, sé ekki rétti tíminn til þess að breyta eða sækja fram”, sagði ráðherra og tók dæmi af íslenska landsliðinu til þess að sýna fram á að þetta sjónarmið fengi ekki staðist:
“Þessir drengir eru þrautþjálfaðir og hafa tæknina á valdi sínu, enda samkeppnishæfir í bestu handboltaliðum heims. Sem lið hafa þeir leyst mörg verkefni saman, unnið glæsta sigra en einnig beðið ósigra. Þeir hafa glöggan skilning á því að rétt hugarfar, vilji til þess að sigra og raunhæft mat á stöðunni, þarf að vera fyrir hendi. Og þeir þurfa í hverjum leik að finna leiðir til þess að sigra erfiða andstæðinga.
Standi þeir vörnina vel skapast oft góð skilyrði fyrir skyndisóknir. Stundum er þó betra að fara sér hægar í sóknina og byggja hana vel upp í stað þess að skjóta á markið í bráðræði úr þröngum færum. Þeir sýna okkur betur en margt annað að sókn getur verið góð taktík sem varnarleikur. Það er aldrei nóg að pakka bara í vörn.
Í stórum dráttum eru það sömu viðhorf, sami skilningur og samskonar mat sem þarf að liggja til grundvallar þegar við sem þjóð metum stöðu okkar til þess að verjast og sækja fram við erfiðar aðstæður.”
Forsætisráðherra tók fram að vinnubrögð og verklag við mótun sóknaráætlunarinnar endurspegluðu gildin sem lögð væru til grundvallar og þar væri m.a. um að ræða gildi Þjóðfundarins um heiðarleika, réttlæti og virðingu. Þjóðfundir þeir sem haldnir verða um land allt eru sniðnir eftir Þjóðfundinum í Laugardalshöll og Mauraþúfan sem undirbjó það verkefni er meðal undirbúningsaðila að Sóknaráætlun. Með þeim hætti væri hennar mikilsverða frumkvæði sýndur sómi. Ekki væri síður þýðingarmikið að unnið sé að verkefninu á opinn og gegnsæjan hátt og fólk og fyrirtæki, landshlutar og stofnanir geri það að sínu, eignist hlutdeild í því og líti á sóknaráætlun sem sitt verkfæri.
“Í sóknaráætlun 20/20 felst ekki síst vilji til þess að opna á milli hólfa sem við höfum tilhneigingu til þess að halda hugsunum okkar og gjörðum innan. Opna á milli áætlana, milli landshluta, milli stofnana, milli ríkis og sveitarfélaga – og freista þess að sameinast í nýrri sýn, nýjum takti og árangursríkum aðferðum sem skila okkur áleiðis til betra samfélags”, sagði forsætisráðherra m.a.
Markmiðið með sóknaráætlun er að tryggja að Ísland verið eitt af 10 samkeppnishæfustu löndum heims árið 2020.
Hjálagt fylgir ávarp forsætisráðherra