Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun

Merki Evrópuársins 2010Evrópusambandið hefur helgað árið 2010 baráttu gegn fátækt og félagslegri einangrun. Stöðvum fátæktina strax er kjörorð átaksins sem José Manuel Barroso, forseti Evrópuráðsins og spænski forsætisráðherrann José Luis Zapatero ýttu formlega úr vör í gær á ráðstefnu um málið sem haldin var í Madríd á Spáni.  

Talið er að um 17% Evrópubúa, þ.e. um 84 milljónir manna, búi við kjör sem eru undir fátæktarmörkum.  Í ávarpi sínu sagði Barroso að baráttan gegn fátækt og félagslegri einangrun væri mikilvægur hluti af því að komast út úr efnahagskreppunni og benti á að oftast væru það hinir varnarlausu í samfélaginu sem yrðu harðast úti í slíku ástandi.

Alls taka 29 þjóðir þátt í Evrópuárinu gegn fátækt og félagslegri einangrun, þ.e. aðildarríki Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs. Evrópusambandið leggur um 17 milljónir evra til átaksins og verður þeim varið til verkefna sem taka til allrar álfunnar, auk átaksverkefna sem einstakar þjóðir efna til í samræmi við helstu forgangsverkefni sín á þessu sviði.

Árni Páll ÁrnasonHér á landi stýrir félags- og tryggingamálaráðuneytið átakinu og verður um 25 milljónum króna verði varið til margvíslegra verkefna til að vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun. Auglýst verður eftir verkefnum í byrjun febrúar og er vonast eftir góðri þátttöku. „ Við þurfum að vanda mjög til verka við núverandi aðstæður, til að koma í veg fyrir fátækt og félagslega einangrun,“ segir Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra. „Þess vegna höfum við í aðhaldsaðgerðum lagt áherslu á að skerða í engu bætur almannatrygginga hjá þeim sem hafa þær einar til framfærslu og greiðslur vegna fæðingarorlofs eru óskertar hjá lægri tekjuhópum. Við erum líka að ráðast í gríðarlegt átak til að rjúfa einangrun og auka virkni þeirra sem glíma við langtímaatvinnuleysi, á sama tíma og við eflum möguleika fólks með skerta starfsgetu til virkrar þátttöku á vinnumarkaði og í samfélaginu. Um öll þessi verkefni þarf þjóðarsamstöðu.“

Í erindi sem Vladimír Špidla, framkvæmdastjóri jafnra tækifæra, atvinnu- og félagsmála hjá Evrópuráðinu, flutti við setningarathöfnina í gær sagði hann meðal annars: „Sjötti hver Evrópubúi berst daglega við að ná endum saman en fátækt hefur áhrif á okkur öll – samfélag okkar í heild. Þótt flest verkfærin til að berjast gegn fátækt séu innan hvers lands fyrir sig, þá ætlast flestir Evrópubúar til þess að Evrópusambandið leggi baráttunni lið. Evrópuárið setur málefnið í forgrunn svo að Evrópa í heild sinni geti sameinast um að berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun.

Nánari upplýsingar: http://www.dwp.gov.uk/european-year-2010/

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta