Um fimmtíu manns á námsstefnu um fjármálareglur sveitarfélaga
Um fimmtíu manns sitja nú námsstefnu um fjármálareglur sveitarfélaga sem haldið er á vegum Evrópuráðsins og samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál. Námsstefnan er ætluð forráðamönnun sveitarfélaga og öðrum sérfræðingum á sviði fjármála ríkis eða sveitarfélaga.
Meðal efnis á námsstefnunni sem haldin er í Reykjavík eru erindi innlendra og erlendra sérfræðinga um samræmingu hagstjórnar ríkis og sveitarfélaga, ábyrgð sveitarstjórna í fjármálum, kynntar verða fjármálareglur sveitarfélaga í Hollandi, rætt um samræmi í hagstjórn sveitarstjórna og ríkisfjármála á Norðurlöndum, fjallað verður um sama efni af sjónarhóli Breta, hvernig stýra á skuldbindingum sveitarstjórna og fjallað verður um setningu fjármálareglna.
Í upphafi fundar ávarpaði Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, ráðstefnugesti og flutti þeim kveðju ráðherra sem var á sama tíma á ríkisstjórnarfundi. Síðan fluttu erindi þeir Frankt Steketee, Björn Rúnar Guðmundsson, Gert-Jan Buitendijk, Jorgen Lotz, Nick Cooper, Sigurður Snævarr, Bernd Spahn og Richard Hughes.
Í gær var óformlegur fundur erlendu gestanna með samráðsnefndinni þar sem gestunum voru kynnt nokkur atriði varðandi fjármál og fjárhagsstöðu sveitarfélaga hérlendis og hvernig háttað er starfsemi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.