Fjárframlög til Ríkisútvarpsins ohf.
Fréttatilkynning nr. 2/2010
Helstu atriði:
- Framlag ríkissjóðs til RÚV árið 2009 var 575 m.kr. umfram innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.
- Fjárlög 2010 gera ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til RÚV verði 418 m.kr. umfram innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.
Að gefnu tilefni vilja fjármálaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri.
Með lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf. (RÚV), var kveðið á um upptöku sérstaks útvarpsgjalds frá 1. janúar 2009 sem koma skyldi í stað afnotagjalda. Skv. lögunum var gjaldið markað, þ.e. allar innheimtar tekjur af því áttu að renna til reksturs RÚV.
Við efnahagshrunið í október 2008 skapaðist mikil óvissa um tekjustofna ríkissjóðs, þ.á m. útvarpsgjaldið. Til þess að bregðast við þeirri óvissu lagði þáverandi ríkisstjórn fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 6/2007. Með því var m.a. lagt til að gjaldið yrði hækkað um 18% auk þess sem bein mörkun þess til reksturs RÚV var afnumin. Þessar breytingar voru samþykktar á Alþingi í desember 2008.
Í fjárlögum ársins 2009 var gert ráð fyrir að framlag til RÚV úr ríkissjóði yrði 2.945 m.kr. Vorið 2009 ákvað núverandi ríkisstjórn að leggja það til að framlag til RÚV yrði aukið um 630 m.kr. í fjáraukalögum (21% aukning frá fjárlögum). Heildarframlag ríkissjóðs til RÚV árið 2009 nam því 3.575 m.kr.
Í fjárlögum 2009 var gert ráð fyrir að innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi yrðu 3.575 m.kr. en við endanlega gerð fjáraukalaga kom í ljós að einungis 3.000 m.kr. myndu skila sér. Framlag ríkissjóðs til RÚV var því 575 m.kr. umfram áætlaðar innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi árið 2009.
Við gerð fjárlaga ársins 2010 var sett markmið um 10% aðhald í rekstri RÚV eins og margra annarra rekstrarstofnana. Framlag ríkissjóðs til RÚV mun því lækka úr 3.575 m.kr. í 3.218 m.kr. á þessu ári sem er þó hærra en það var árið 2008. Í fjárlögum 2010 er áætlað að innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi verði 2.800 m.kr. og verði því 418 m.kr. lægra en framlag ríkissjóðs til RÚV verður skv. fjárlögum.
Við gerð áætlunar um tekjur af útvarpsgjaldi fyrir fjárlög ársins 2010 var tekið mið af útkomu ársins 2009 sem sýndi að tekjustofninn hafði verið ofmetinn í fjárlögum ársins 2009.
Fjármálaráðuneytinu, 25. janúar 2010