Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fyrirkomulag innritunar nýnema í framhaldsskóla vorið 2010

Ný lög voru sett um leik-, grunn- og framhaldsskóla árið 2008 og er nú verið að semja aðalnámskrár fyrir þessi skólastig.

Til skólastjóra grunnskóla og skólameistara framhaldsskóla

Ný lög voru sett um leik-, grunn- og framhaldsskóla árið 2008 og er nú verið að semja aðalnámskrár fyrir þessi skólastig. Þær verða sá grundvöllur sem skólarnir reisa skólanámskrá sína á. Lögin tryggja rétt ólögráða nemenda til náms í framhaldsskóla. Breytingar hljóta að taka mið af þessu þannig að námsframboð verði fjölbreyttara og sem flestir fái nám við hæfi í skóla í nágrenni sínu. Með fullri gildistöku laga um framhaldsskóla haustið 2011 eiga skólar að bjóða upp á meiri fjölbreytni í námstilboðum sínum jafnframt því sem þeir marka sérstöðu sína.

Unnið er að endurbótum á fyrirkomulagi innritunar með það í huga að auka ráðgjöf við nemendur í grunnskólum og auðvelda þeim inngöngu í framhaldsskóla að loknu skyldunámi. Innritun nýnema úr 10. bekk í framhaldsskóla fyrir haustið 2010 er í tvennu lagi sem hér segir. Nýnemar skulu sækja um framhaldsskóla dagana 12.-16. apríl. Þeir eiga að velja námsbraut og tvo skóla, aðal- og varaskóla. Þeim er eindregið ráðlagt að hafa annan þeirra þann skóla sem á að veita þeim forgang hafi þeir staðist inntökuskilyrði. Enginn vitnisburður fylgir nemendum í þessari forinnritun og umsóknir verða ekki endanlega afgreiddar fyrr en lokavitnisburður grunnskóla liggur fyrir. Í framhaldi forinnritunar er hægt að sjá hvernig umsóknir dreifast á námsbrautir og skóla og til hvaða aðgerða þarf að grípa til þess að nemendur fái þá úrlausn sem best hentar. Að loknum skólaslitum í vor verður lokavitnisburður nemenda sendur til þess skóla sem þeir sóttu um sem fyrra val. Nemendum gefst þá einnig frestur til þess að endurskoða umsókn sína dagana 7.-11. júní.

Nemendur sem búa á svæði skóla eiga forgang til inngöngu á þær námsbrautir sem þar eru í boði ef þeir standast inntökuskilyrði. Þannig eiga framhaldsskólar að innrita fyrst þá sem á svæði þeirra búa, hafa staðist skilyrði og sækja um viðkomandi skóla sem aðal- eða varaval. Að því loknu geta skólar tekið inn aðra nemendur í samræmi við skilgreindar reglur skv. skólasamningi og skólanámskrá. Nánar verður útfært hvernig heimasvæði skólanna eru skilgreind en framhaldsskólum er gert að taka að minnsta kosti 45% nemenda af svæði sínu, að því gefnu að svo margir eða fleiri sæki og hafi staðist inntökuskilyrði á brautir sem í boði eru. Með þessu móti verður ákvæðum laga um rétt ólögráða nemenda til skólavistar best sinnt.

Mikilvægt er að grunnskólar kynni ítarlega fyrir nemendum sínum námsframboð og inntökuskilyrði á einstakar brautir framhaldsskóla. Með markvissri kynningu á námi að loknum grunnskóla til nemenda og forráðamanna þeirra aukast líkurnar á því að val nemenda verði sem raunhæfast með tilliti til forsendna og áhuga hvers og eins. Inntökuskilyrði framhaldsskóla og hversu með þau er farið þurfa að blasa við á heimasíðum skólanna til kynningar fyrir nemendur og forráðamenn þeirra.

Brýnt er að grunn- og framhaldsskólar eigi með sér gott samstarf þannig að upplýsingar gangi greiðlega milli skólastiganna, nemendum og forráðamönnum þeirra til hagsbóta. Ráðuneytið hefur því komið á samráðshópi með þátttöku skólastjóra, skólameistara og fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjallar hópurinn um margvísleg mál sem snerta skil þessara skólastiga, sérstaklega innritun nýnema.

Ráðuneytið mun á komandi vikum senda þeim er málið varðar nánari upplýsingar um fyrirkomulag og framkvæmd innritunar og væntir góðs samstarfs um þetta mikilvæga mál.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta