Morgunfundur um nýtt regluverk og aðhald með fjármálastarfsemi á Íslandi
- Efnahags- og viðskiptaráðuneytið býður til morgunfundar í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins kl. 8:15 – 10:00 föstudaginn 29. janúar 2010 undir yfirskriftinni: „Straumhvörf á fjármálamarkaði – eftirlit, aðhald og ábyrgð.“
- Á fundinum verða kynnt verkefni Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans, Samkeppniseftirlitsins, Bankasýslunnar, eftirlitsnefndar með sértækri skuldaaðlögun og umboðsmanns viðskiptavina bankanna.
- Á föstudag mæli efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um fjármálamarkað sem svarar þeirri gagnrýni og ábendingum sem komið hafa fram í kjölfar hrunsins.
Undanfarna mánuði hafa stjórnvöld unnið að því að bæta regluverk fjármálamarkaðar og endurmeta hlutverk eftirlitsaðila. Á morgunfundi ráðuneytisins föstudaginn 29. janúar 2010 er ætlunin að kynna nýtt regluverk á fjármálamarkaði, hlutverk eftirlitsstofnana, Seðlabanka, Bankasýslu og annarra aðila sem gæta hagsmuna almennings í þessum mikilvæga málaflokki.
Frá því síðla árs 2008 hefur verið unnið að því að bæta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja til þess að bregðast við orsökum og afleiðingum þess áfalls sem dundi yfir íslenskt efnahagslíf þá um haustið. Stjórnvöld fólu Kaarlo Jännäri, fyrrverandi forstjóra finnska fjármálaeftirlitsins, að meta lagaumhverfið og gera tillögur til úrbóta. Starfshópur á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins fjallaði nánar um niðurstöðu Jännäri og átti þátt í að smíða frumvarp til laga sem lagt var fram á Alþingi skömmu fyrir áramót. Á föstudag mælir efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir frumvarpinu, en þar er brugðist er við þeim ábendingum sem fram hafa komið um auknar valdheimildir eftirlitsaðila, ábyrgð stjórnenda fjármálafyrirtækja og virkari takmarkanir á áhættu og hagsmunatengslum.
Stjórnvöld hafa einnig fylgst náið með og tekið mið af alþjóðlegri umræðu um þessi mál. Óhætt er að fullyrða að þær lagabreytingar sem efnahags- og viðskiptaráðherra boðar nú munu valda meiri breytingum á regluverki íslensks fjármálamarkaðar en dæmi er um á erlendum vettvangi.
Morgunfundurinn hefst með erindi efnahags- og viðskiptaráðherra. Að því loknu mun Gunnar Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins og Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands kynna hlutverk þessara stofnana í ljósi bankahrunsins og þeirra verkefna sem bíða við endurreisn fjármálamarkaðarins og atvinnulífsins.
Þá mun Elín Jónsdóttir forstjóri Bankasýslu ríkisins fjalla um það hvernig stofnunin framfylgir eigendastefnu stjórnvalda og veitir aðhald fjármálafyrirtækjum sem verða að hluta í eigu ríkisins.
María Thjell formaður nefndar um eftirlit með sértækri skuldaaðlögun fjallar um hlutverk nefndarinnar, en henni var komið á með lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Að lokum mun Brynhildur Georgsdóttir umboðsmaður viðskiptavina í Arion banka kynna starf umboðsmannanna, sem nú starfa í viðskiptabönkunum þremur .
Húsið opnar kl. 8:00 og fundurinn er öllum opinn.
Nákvæmari dagskrá er að finna hér.
Frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki er birt á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/138/s/0614.html
Upplýsingar fyrir fjölmiðla veitir Benedikt Stefánsson, aðstoðarmaður ráðherra, tölvupóstfang: [email protected].