Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2010 Dómsmálaráðuneytið

Tillögur vinnuhóps um aukið eftirlit með útlendingum til að uppræta skipulagða glæpastarfsemi

Vinnuhópur sem Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, setti á fót í desember sl. til að kanna möguleika innan gildandi laga og alþjóðlegs samstarfs til að efla eftirlit með útlendingum og tryggja að nýttar séu þær heimildir sem til staðar eru til þess að uppræta skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, hefur nú skilað ráðherra 16 tillögum til úrbóta. Ráðherra hefur í framhaldinu falið samráðsnefnd lögreglu og Útlendingastofnunar um útlendingamál að fylgja tillögum vinnuhópsins eftir.

Vinnuhópinn skipuðu þau Sigríður Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sem var jafnframt formaður, Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, Guðbrandur Guðbrandsson, lögreglufulltrúi hjá alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra, Jóhann Karl Þórisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins og Þorsteinn Gunnarsson, forstöðumaður hælissviðs Útlendingastofnunar.

Vinnuhópurinn leggur m.a. til að lögregla nýti betur þá kosti sem felast í Schengen-samstarfinu. Aðgangur að gagnabönkum, fagstofnunum og aðild að alþjóðlegum samningum stuðli að sterkari stöðu lögreglu á Íslandi í baráttunni við skipulagða alþjóðlega brotastarfsemi. Hægt sé þó að gera mun betur til þess að vega upp ókosti Schengen-samstarfsins og jafnframt að nýta betur þá kosti sem samstarfið býður upp á en gert er í dag. Vinnuhópurinn leggur ekki til breytingar á framkvæmd landamæraeftirlits en leggur hins vegar til að tekið verið upp nánara samstarf lögreglu og tollgæslu við svæðisbundið eftirlit í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem byggt verður á grundvelli áhættugreiningarlíkans. (sjá tillögu 3 í skýrslunni)

Aðrar helstu tillögur vinnuhópsins eru þessar:

1. Komið verði á fót svokölluðum INDICIA upplýsingagrunni hérlendis, til nota fyrir lögreglu og tollgæslu. Aukin áhersla verði lögð á greiningar og vinnslu tölfræðiupplýsinga um afbrot útlendinga. (Tillaga 6).

2. Frumkvæði að beitingu brottvísana verði fært til lögreglu sem undirbúi mál til ákvarðanatöku hjá Útlendingastofnun. (Tillaga 8).

3.   Aukinn málshraði. Sett verði á flýtimeðferð hjá Útlendingastofnun, sem miði að því að ákvörðun um frávísun verði tekin í fullbúnu máli að gættum fresti til andmæla innan 24 klukkustunda og í málum vegna brottvísunar innan 48 klukkustunda eftir að mál berst fullbúið frá lögreglu. (Tillaga 10).

Skýrslu vinnuhópsins ásamt tillögum má finna hér. (pdf-skjal)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta