Ísland efst í alþjóðlegu mati á frammistöðu í umhverfismálum.
Ísland er í fyrsta sæti af 163 þjóðum í samræmdri umhverfisvísitölu sem hópur umhverfissérfræðinga í Yale og Columbia háskólunum tekur saman. Frá þessu var greint á ársfundi World Economic Forum í Davos í Sviss þann 28. janúar. Vísitalan sem kallast á ensku Environmental Performance Index (EPI) er nú birt í þriðja sinn en hún hefur verið gefin út annað hvort ár frá árinu 2006.
Samkvæmt niðurstöðum umhverfissérfræðinganna er hreinleikinn meðal helstu styrkleika Íslands en hér á landi eru minnst heilsufarsvandamál tengd umhverfisvandamálum. Aðrir styrkleikar eru vatnsgæði, þar sem Ísland fær fullt hús stiga eitt landa í mælingunni, lítil losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa, orkuframleiðsla og átak í endurheimt skóga.
Löndin í næstu sætum á eftir Íslandi eru Sviss, Kosta Ríka, Svíþjóð og Noregur. Ríki Evrópusambandsins koma að jafnaði vel út i og eru 20 þeirra ofar á listanum en Bandaríkin sem lenda í 61. sæti. Augljóst er að þjóðartekjur hafa mikil áhrif á frammistöðu á umhverfismálum en löndin í botnsætunum, Tógó, Angóla, Máritanía, Miðafríkulýðveldið og Síerra Leone glíma öll við mikla fátækt og skort á nauðsynlegum innviðum. Nýmarkaðsríkin Kína og Indland eru í 121. og 123. sæti sem er vísbending um að hraður vöxtur undanfarinna ára hafi að einhverju leyti verið á kostnað umhverfisins.
Þótt meginreglan sé sú að ríki með svipaðar tekjur og á sömu svæðum fái líka útkomu úr matinu eru á því undantekningar sem að mati skýrsluhöfunda sýna mikilvægi þess að reka virka umhverfisstefnu. Í því sambandi benda þeir á muninn á frammistöðu Chile í 16. sæti og Argentínu í 70. sæti.
Hvatning til að gera enn betur
„Þessar niðurstöður eru Íslandi hvatning til að gera enn betur á þeim sviðum þar sem við getum bætt okkur. Þær sýna líka að sú sérstaða sem okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir skapa er raunveruleg og mælanleg. Þar eigum við enn frekari sóknarfæri, ekki síst ef við tengjum nýtingu þessara auðlinda enn frekar við umhverfisvænan iðnað. Við sjáum merki um slíkt nú þegar í þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er í grænum gagnaverum með þátttöku virtra erlendra fyrirtækja. Þá eru svona niðurstöður mikill styrkur fyrir íslenska ferðaþjónustu,“ segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.