Skýrsla um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar
Fréttatilkynning nr. 3/2010
Starfshópur á vegum fjármálaráðherra hefur lokið gerð skýrslu um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar. Verkefni hópsins var leggja mat á lagaumhverfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR), skattlagningu á áfengi, áfengisauglýsingum og markaðssetningu áfengis. Skýrslan verður notuð til grundvallar stefnumótunnar í málaflokki áfengismála og hefur ríkisstjórn falið starfhópnum að halda vinnu sinni áfram og undirbúa framlagningu frumvarps að nýrri áfengislöggjöf á haustþingi 2010.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Núgildandi löggjöf og markmið hennar endurspegla ekki núverandi framkvæmd og viðhorf til málaflokksins.
- Brýnasta verkefni stjórnvalda í áfengismálum að móta heildstæða stefnu í áfengismálum með skýrum og raunhæfum markmiðum sem miða að því að draga úr skaðlegri neyslu áfengis.
- Lagt til að heimila skuli með miklum takmörkunum auglýsingar áfengi enda sé óraunhæft sé að ætla að koma algjörlega í veg fyrir þær. Slíkt er í samræmi við reglur flestra Norðurlandaþjóðanna og líklegt til að gera eftirlit skilvirkara og eyða réttaróvissu.
- Að mati hópsins er þörf á endurskoðun áfengiskaupaaldurs í samræmi við önnur réttindi.
- Ekki er æskilegt að afnema einkasölu ríkisins á smásölu áfengis heldur þvert á móti að styrkja stöðu ÁTVR.
- Nokkuð svigrúm til aukinnar skattlagningu á áfengi sé miðað við vísitölu neysluverðs. Athuga verður þó að skattlagning er sterkasti þátturinn í stjórnun á neyslu vörunnar og ætti því ekki einungis að miða skattlagningu áfengis við tekjuöflun heldur einnig sem tæki til að stýra neyslu, í samræmi við áfengisstefnu stjórnvalda.
Starfshópurinn hóf störf í apríl 2009. Hann skipa Þórður Reynisson, lögfræðingur, fjármálaráðuneytinu, formaður starfshópsins, Guðmundur Jóhann Árnason, lögfræðingur, fjármálaráðuneytinu, (tók við formennsku í byrjun september 2009), Anna Björg Aradóttir, yfirhjúkrunarfræðingur, Landlæknisembættinu, skipuð samkvæmt tilnefningu heilbrigðisráðuneytisins, Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur, skipuð samkvæmt tilnefningu dómsmálaráðuneytisins, Helga Hauksdóttir, lögfræðingur, skipuð samkvæmt tilnefningu tollstjóra.
- Heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar (PDF 632 KB)
Fjármálaráðuneytinu, 28. janúar 2009