Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Starfshópur um líffræðilega fjölbreytni

Starfshópi verður falið að ganga frá tíma- og áfangaskiptri framkvæmdaráætlun á grundvelli stefnumótunar ríkisstjórnarinnar um líffræðilega fjölbreytni, auk þess að leggja til verkaskiptingu á milli ráðuneyta í málaflokknum. Þrjú ráðuneyti munu koma að störfum starfshópsins – umhverfisráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti – og mun starfshópurinn starfa undir formennsku umhverfisráðuneytisins. Ríkisstjórn samþykkti þetta á fundi sínum í gær að tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra.

Umhverfisráðherra lagði stofnun starfshópsins til í minnisblaði í tilefni þess að árið 2010 er alþjóðlegt ár líffræðilegrar fjölbreytni. Á árinu verður haldinn aðildarríkjafundur Samningsins um líffræðilega fjölbreytni og ráðherrafundur OSPAR-samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Á báðum þessum fundum munu málefni líffræðilegrar fjölbreytni og verndarsvæði í hafinu verða fyrirferðamikil í umræðu.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð og Samfylkingarinnar er áhersla lögð á að marka stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika og vernd búsvæða tegunda, með það að markmiði að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni vistkerfa á landi, í sjó og vötnum.

Ísland hefur verið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni frá því í desember árið 1994. Með staðfestingu samningsins í september 1994 gekkst íslenska ríkið undir viðamiklar alþjóðlegar skuldbindingar sem lúta að verndun og sjálfbærri nýtingu lífríkisins og jafnframt undir skuldbindingar er lúta að verndun og nýtingu og sanngjarni skiptingu hagnaðar af nýtingu erfðaauðlinda.

Stefnumörkun Íslands um framkvæmd samnings um líffræðilega fjölbreytni var samþykkt í ríkisstjórn í ágúst 2008. Innan umhverfisráðuneytisins liggur fyrir gróf áætlun um aðgerðir á grundvelli stefnunnar, sem einkum lúta að verksviði ráðuneytisins. Hins vegar er þörf á öflugu starfi til að hrinda stefnumörkuninni í framkvæmd í þeim ráðuneytum og málaflokkum sem stefnumörkunin nær til – og er starfshópnum ætlað að koma því starfi af stað. Meðal áhersluatriða í stefnumörkuninni eru rannsóknir og vöktun, fræðsla, verndun lífríkis á landi og í ferskvatni, svæðisbundin verndun lífríkis í sjó, net verndarsvæða, vörn gegn ágengum framandi tegundum, endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og reglur um meðferð og dreifingu erfðabreyttra lífvera.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta