Fyrsti þjóðfundur landshluta á Egilsstöðum - hlé gert til að horfa á leik Íslendinga og Frakka
Á morgun, laugardaginn 30. janúar, verður fyrsti þjóðfundur landshlutanna af átta haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum. Á fundinum verður fólk hvaðanæva af Austurlandi frá Djúpavogi til Vopnafjarðar. Helmingur fundarmanna er kvaddur til fundar samkvæmt tilviljunarkenndu úrtaki úr þjóðskrá en þar eru einnig fulltrúar sveitarfélaga, sérfræðingar úr stjórnsýslu og fulltrúar stjórnmálaflokka. Þjóðfundurinn á Egilsstöðum stendur frá kl. 10.00 árdegis til kl. 16:00 en hlé verður gert á honum til þess að fundarmenn geti horft saman á leik Íslands og Frakklands í handbolta í undanúrslitum Evrópumótsins í Vín.
Verkefnið á þjóðfundum landshlutanna, sem haldnir verða á tímabilinu 30. janúar til 20. mars, er að setja fram hugmyndir um framtíðaráform á viðkomandi svæði til eflingar atvinnulífs og samfélags á grundvelli sérstöðu og styrkleika svæðanna. Þessi vinna verður grundvöllur að áætlun hvers landshluta innan þeirrar sóknaráætlunar sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gerð verði og tillaga til þingsályktunar hefur verið lögð fram um á Alþingi. Undirbúningur fundarins á Egilsstöðum var í höndum stýrihóps um sóknaráætlun en framkvæmd hans er á vegum Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi.
Reykjavík 29. janúar 2010