Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2010 Forsætisráðuneytið

Undirbúningi stórverkefna miðar áfram, sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á fundi Sóknaráætlunar 20/20 í gær

Húsfyllir var á fundi Sóknaráætlunar 20/20 á Radisson SAS Hotel Sögu í gær þar sem horft var til framtíðar fyrir atvinnulíf og samfélag og kallað eftir sjónarmiðum samtaka, grasrótarhópa og hagsmunaaðla um það sem aukið gæti lífsgæði og samkeppnishæfni Íslands á komandi árum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í ávarpi að verðbólga og vextir héldu áfram að lækka en um leið væri ljóst að óvissa í efnahagsmálum hefði aukist vegna frestunar á því að leysa deiluna um bætur til innistæðueigenda útibúa Landsbankans erlendis. Vaxtalækkun nú hefði orðið mun meiri en 0,5% ef Icesave hefði verið afgreitt. "Við erum að glata dýrmætum tíma og tafir á framkvæmd efnahagsáætlunar Íslands og AGS, frestun á áætlun um afnám gjaldeyrishafta og takmarkanir á aðgengi Íslands að alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum munu verða okkur afar dýrkeypt ef fram heldur sem horfir", sagði forsætisráðherra og hélt áfram: "Meðan efnahagslíf á heimsvísu er á leið upp úr öldudalnum eigum við á hættu að keyrast enn lengra niður í öldudalinn. Seðlabankinn varar við því að linni óvissunni ekki á næstu vikum séu horfur á því að fjárfesting taki seinna við sér og samdráttur landsframleiðslu og atvinnuleysi verði meiri en nú er spáð. Í þessu sambandi verður að muna að við eigum gífurlega mikið undir því að stýring á skuldum ríkisins takist vel á næstu árum og hægt verði að halda utanum skuldirnar á viðráðanlegum kjörum."

Forsætisráðherra sagði að þrátt fyrir mikla erfiðleika hefði samt miðað áfram á mörgum sviðum og þar nefndi hún sérstaklega að bankarnir ættu nú að vera í stakk búnir til þess að endurskipuleggja fjárhag lífvænlegra fyrirtækja í landinu. "Það skiptir og miklu máli upp á atvinnustigið í landinu að stór verkefni komist í gang í byggingageiranum vegna þess að hann hrundi þegar þenslunni lauk. Það er hins vegar eðli stórframkvæmda að þar er um flókin ferli að ræða sem við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum er þrautin þyngri að ráða fram úr. Öll þau verkefni sem fjallað er um í Stöðugleikasáttmálanum, hvort sem um er að ræða endurnýjun í Straumsvík, undirbúning álvers í Helguvík, gagnaver Verne Holding, nýjan Landspítala og Samgöngumiðstöð og samgönguframkvæmdir þokast þó áfram en afar brýnt er þau nái fram að ganga. Með úrskurði umhverfisráðherra vegna Suðvesturlínu er enn einni óvissunni eytt í þessum efnum."


Ávarp ráðherra

 

Reykjavík 29. janúar 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta