Efnismikill og gagnlegur fundur Barroso og Jóhönnu í Brussel
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra átti í dag fund með José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Olli Rehn, núverandi yfirmanni stækkunarmála, sem mun taka við stöðu framkvæmdastjóra efnahags- og gjaldeyrismála innan Evrópusambandsins í næstu viku.
Á fundinum fór forsætisráðherra ítarlega yfir stöðu mála á Íslandi. Sérstaklega var fjallað um Icesave málið og samskipti Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ráðherra lagði áherslu á að afar óheppilegt og skaðlegt væri ef aðildarríki Evrópusambandsins tengdu Icesave-málið við aðra endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Forsætisráðherra gerði grein fyrir því að margir á Íslandi teldu að Íslendingar væru fórnarlömb gallaðrar EES-löggjafar og að byrðinni vegna Icesave-málsins væri ójafnt skipt á milli Íslands, Bretlands og Hollands. Forsætisráðherra lagði jafnframt áherslu á að lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna væru mikilvæg forsenda endurreisnar efnahagslífsins á Íslandi. Staða aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið var einnig rædd og forsætisráðherra lagði áherslu á að málið fengi eðlilegan framgang.
“Þetta var mjög jákvæður og efnismikill fundur og afar gagnlegur. Við ræddum hreinskilnislega um Icesave-málið og þá stöðu sem uppi er á Íslandi. Það er afar mikilvægt að auka skilning ráðamanna innan Evrópusambandsins á þeirri stöðu sem við Íslendingar erum nú í og leita allra hugsanlegra leiða til lausna og að sjálfsögðu var allt undir í viðræðum okkar,” segir Jóhanna Sigurðardóttir um fundinn.
Forsætisráðherra átti einnig fundi með yfirmönnum EFTA og ESA í Brussel.
Reykjavík 4. febrúar 2010