Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2010 Forsætisráðuneytið

110 manns hafa skráð sig á þjóðfund í Bolungarvík

Á morgun, laugardaginn 6. febrúar, verður haldinn þjóðfundur í Íþróttahúsinu á Bolungarvík þar sem koma saman fulltrúar íbúa á Vestfjörðum, sem valdir eru með tilviljunarkenndu úrtaki úr þjóðskrá, og fulltrúar hagsmunaaðila af svæðinu. Þar er um að ræða fólk úr sveitarstjórnum, atvinnulífi, launþegasamtökum,stofnunum og stjórnmálaflokkum. Eitt hundrað og tíu manns hafa skráð sig til þátttöku en áttatíu manns voru á þjóðfundi á Egilsstöðum sl. laugardag sem heppnaðist vel. Þjóðfundurinn í Bolungarvík stendur frá kl. 10.00 árdegis til kl. 16:00.

Verkefnið á þjóðfundum landshlutanna, sem haldnir verða á hverjum laugardegi til 20. mars, er að setja fram hugmyndir um framtíðaráform á viðkomandi svæði til eflingar atvinnulífs og samfélags á grundvelli sérstöðu og styrkleika svæðanna. Þessi vinna verður grundvöllur að áætlun hvers landshluta innan þeirrar sóknaráætlunar sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gerð verði og tillaga til þingsályktunar hefur verið lögð fram um á Alþingi. Undirbúningur fundarins í Bolungarvík var höndum stýrihóps um sóknaráætlun en framkvæmd hans er á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.


Reykjavík 5. febrúar 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta