Móttaka fólks frá Haítí til umfjöllunar í flóttamannanefnd
Félags- og tryggingamálaráðherra hefur falið flóttamannanefnd að fjalla um möguleika þess að taka á móti fólki frá Haítí á grundvelli ákvæða í lögum um útlendinga sem fjalla um fjölskyldusameiningu og heimildar til að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þetta var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og var félags- og tryggingamálaráðherra, dóms- og mannréttindamálaráðherra og utanríkisráðherra falið að vinna að málinu í samstarfi við flóttamannanefnd.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst því yfir við flóttamannanefnd að hún líti ekki svo á að flytja eigi fólk á brott frá Haítí heldur skuli megináhersla lögð á að veita aðstoð á staðnum. Aftur á móti hvetur stofnunin íslensk stjórnvöld til þess að veita forgang umsóknum fólks frá Haítí um fjölskyldusameiningu í samræmi við 13. gr. laga um útlendinga og sýna sveigjanleika við meðferð þeirra. Þá telur hún einnig að í ákveðnum tilvikum gæti komið til greina að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt 12. gr. sömu laga.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, reiknar með því að það muni skýrast mjög fljótlega hve margir geti átt rétt á að koma hingað til lands samkvæmt fyrrnefndum lagaákvæðum.