Nr. 8/2010 - Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur fram frumvarp um strandveiðar
Á næstu dögum mun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, mæla fyrir tveimur frumvörpum á Alþingi, en með því fyrra eru lagðar til breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og taka þær til strandveiða. Samhliða leggur ráðherra til breytingar á lögum nr. 33/2000 um veiðieftirlitsgjald, sem fela í sér að auk 17.500 kr. leyfisgjalds vegna strandveiða sem renna til Fiskistofu, greiði viðkomandi sérstaklega 50.000 kr. Þær tekjur munu renna beint til löndunarhafna báta sem hafa strandveiðileyfi.
Eins og kunnugt er hófust strandveiðar í lok júní 2009, eftir að Alþingi hafði samþykkt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 66/2009 um breytingu á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Þar sem um var að ræða nýjan flokk veiða, voru reglur og skilyrði þeirra sett til eins árs. Boðað var að á grunni reynslu og lærdóms sem draga mætti af strandveiðum yrði reynslan metin. Í þessum tilgangi var Háskólasetur Vestfjarða fengið til þess að gera úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna. Úttektin liggur nú fyrir og sýna niðurstöður hennar, að almenn ánægja hafi verið um fyrirkomulag veiða meðal þeirra sem úttektin náði til.
Frumvarpið um strandveiðarnar gerir ráð fyrir að heimild til strandveiða verði lögfest og fyrirkomulag veiðanna verði í meginatriðum það sama og í fyrra. Þannig er gert ráð fyrir að strandveiðar muni einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað er sérstaklega til veiðanna, eða allt að 6.000 lestum af óslægðum botnfiski í stað 3.995 lesta af þorski auk annarra tegunda líkt og var á síðasta ári.
Þær breytingar sem gerðar eru frá sl. sumri eru helstar eftirfarandi:
1) Á hverju fiskveiðiári verði aflaheimildir sem nema allt að 6.000 lestum af óslægðum botnfiski til ráðstöfunar til veiða á handfæri, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda veiðarnar.
2) Heimilt verði að stunda veiðarnar á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst.
Á síðasta ári hófust veiðarnar í lok júní og stóðu fram í ágúst. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að veiðitímabilið verði fjórir mánuðir. Með því að leggja til að veiðar geti hafist í maí er gert ráð fyrir að veiðar við sunnanvert landið verði auðveldari með tilliti til staðbundinnar fiskgengdar.
3) Hverri útgerð verði einungis heimilt að fá leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip.
Takmörkun þessi er sett með tilvísun til þess markmiðs að sem flestum verði gert kleift að stunda strandveiðar. Af þessu leiðir að ekki er gert ráð fyrir að einn aðili geti gert út mörg veiðiskip á strandveiðum.
4) Frá og með fiskveiðiárinu 2010/2011 verði óheimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða, hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af því. Eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skips.
Ekki þykir ástæða til þess að veita útgerð stranveiðileyfi í framtíðinni sem velur að flytja frá sér aflamark umfram það aflamark sem flutt er til skips.
5) Ráðherra verði heimilt með reglugerð að banna strandveiðar á almennum frídögum.
Síðastliðið sumar varð vart mikils áhuga á að heimila ekki veiðar á frídegi verslunarmanna, m.a. þar sem möguleikar til að landa afla á markað voru mismunandi. Er með þessu ákvæði frumvarpsins ráðherra veitt skýlaus heimild til að taka tillit til slíkra aðstæðna.
6) Á hverju fiskiskipi verði heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.
Þannig er afli hverrar veiðiferðar takmarkaður við 650 kg af kvótabundnum tegundum, í þorskígildum talið. Er þetta breyting frá fyrra ári þegar heimilt var að veiða 800 kg af kvótabundnum tegundum án viðmiðunar við þorskígildi. Um sambærilegt magn er að ræða þar sem þorskígildi eru nú látin ráða. Með þessu móti er jafnframt dregið úr hvata til brottkasts á öðrum tegundum en þorski.
Það er von sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, að frumvarpi þessu verði vel tekið, því fyrir liggur að strandveiðar hafa sannað gildi sitt. Kostir þeirra eru margvíslegir líkt og úttekt Háskólaseturs Vestfjarða og meistaraprófsritgerð Gísla H. Haldórssonar við Háskóla Íslands hafa staðfest.
Frumvarp um veiðieftirlitsgjald