Sveitarfélög á Vesturlandi verði eitt tvö eða þrjú?
Efling sveitarstjórnarstigsins var umræðuefni á fundi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi efndu til í Borgarnesi á miðvikudag. Um fimmtíu manns sátu fundinn og urðu miklar umræður í kjölfar framsöguerinda.
Fyrsti fundurinn í röð funda um málið í öllum landshlutum var haldinn á Egilsstöðum skömmu fyrir áramót. Síðan hafa verið haldnir fundir á Ísafirði, Blönduósi, Selfossi og Borgarnesi. Næsti fundur verður klukkan 13 í dag í Duus-húsi í Reykjanesbæ.
Fundurinn hófst með ávarpi Kristjáns L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem rakti í stuttu máli aðdraganda hins nýja verkefnis um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Sagði hann ríkisstjórnina leggja mikla áherslu á verkefnið og eins hefði Samband íslenskra sveitarfélaga margoft lýst yfir stuðningi við það. Sagði hann því góða samstöðu um að efla sveitarstjórnarstigið og sameina sveitarfélög.
Eins og fram hefur komið var í framhaldi af yfirlýsingu ráðherra og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga skipuð nefnd til að kanna sameiningarkosti í hverjum landshluta og leggja fram samræmdar tillögur um stækkun og eflingu sveitarfélaga á hverju svæði fyrir sig. Tillaga nefndarinnar verður lögð fyrir landsþing sambandsins síðar á þessu ári og í framhaldi af því mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggja fyrir Alþingi áætlun um sameiningar sveitarfélaga til ársins 2014.
Ný verkefni og meiri umsvif
Í ræðu sinni sagði ráðherra að ný verkefni kölluðu á meiri umsvif og umfangsmeiri rekstur og stjórnsýslu. Með bættum samgöngu hefðu atvinnusvæði stækkað og með því sköpuðust nýir möguleikar á stækkun sveitarfélaga. Hann kvaðst sjá fyrir sér margháttuð sameiningartækifæri í öllum landsfjórðungum og sagði höfuðborgarsvæðið þar ekki undanskilið, ekki mætti gleyma að kanna möguleika þar.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, fjallaði um reynslu sveitarfélagsins af sameiningu á utanverðu Snæfellsnesi sem gengið hefði í gegn 1994. Hann sagði að sveitarstjórnarmönnum hefði verið fækkað, nefndum fækkað og stjórnsýsla sveitarfélagsins væri á einum stað og af þessu hefði fengist góð reynsla. Taldi hann óraunhæft að skipta henni niður á einn eða fleiri þéttbýlisstaði innan sama sveitarfélags. Þá sagði hann sameiningu skóla einn stærsta liðinn í því að sameina sveitarfélög, öll þjónusta hefði batnað með öflugari einingu. Lagði hann áherslu á að meta ískalt hvernig menn vildu byggja upp stjórnsýslu við slíkar sameiningar.
Heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði
Páll Brynjarsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, fór yfir stöðu og sögu sameiningarmála á Vesturlandi. Hann sagði markmið sameininga að skapa heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði. Hann sagði samtökin hafa skipað vinnuhóp til að starfa með nefndinni um eflingarátakið. Páll varpaði því meðal annars fram að hugsanlega yrðu sveitarfélög á Vesturlandi eitt eða þrjú-fjögur.
Flosi Eiríksson, formaður samstarfsnefndarinnar, kynnti hinar nýju leiðir í eflingu sveitarstjórnarstigsins og Sigurður Tómas Björgvinsson, ráðgjafi sameiningarnefndar, fjallaði um hvað læra mætti af reynslunni af fyrri átaksverkefnum.
Í kjölfar erindanna urðu miklar umræður um sameiningarmál, hvort loforð frá ríkisvaldi um umbun ef til sameininga kæmi gætu skipt máli, hvort kjósa ætti um sameiningar eða hvort valdboð um þær kæmi að ofan og hvort þreyta gæti verið komin í sameiningarumræðuna.