Fjárhaldsstjórn skipuð vegna Sveitarfélagsins Álftaness
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur ákveðið að fara að tillögu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og með vísan til 76. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, að skipa fjárhaldsstjórn til að hafa forystu um endurskipulagningu fjármála Sveitarfélagsins Álftaness.
Fjárhaldsstjórn verður skipuð þremur fulltrúum og tekur hún við stjórn fjármála sveitarfélagsins. Má enga greiðslu inna af hendi úr sveitarsjóði nema með samþykki hennar. Að öðru leyti fer sveitarstjórn áfram með málefni sveitarfélagsins.
Ráðherra leggur áherslu á gott og náið samstarf allra sem málið varðar og að við fjárhagslega endurskipulagningu sveitarfélagsins verði horft til þess að verja eins og kostur er grunnþjónustu við íbúa sveitarfélagsins og félagslega velferð þeirra.
Tillögur eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga
Eins og kunnugt er hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) haft málefni Sveitarfélagsins Álftaness til meðferðar undanfarna mánuði eða frá því að nefndin ritaði sveitarfélaginu bréf þann 24. september 2009 og óskaði skýringa með vísan til 2. mgr. 74. gr. sveitarstjórnarlaga. Þann 5. nóvember tilkynnti síðan sveitarstjórn EFS að Sveitarfélagið Álftanes væri komið í fjárþröng.
Eftirlitsnefnd lét þá þegar fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins og var skýrsla þar að lútandi kynnt ráðuneytinu með bréfi dags. 14. desember síðastliðinn. Í bréfinu lagði eftirlitsnefndin til að sveitarfélaginu yrði með vísan til 2. mgr. 76. gr. sveitarstjórnarlaga veittur frestur til 20. janúar 2010 til að koma fjármálum sveitarfélagsins á réttan kjöl. Ákvörðun þar að lútandi var kynnt með bréfi dags. 17. desember 2009, auk þess sem EFS og sveitarfélagið gerðu með sér samkomulag um fjárhagslegar aðgerðir á tímabilinu, svo sem gerð rekstraráætlunar og fyrirframgreiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Umræddur frestur var síðan framlengdur til 27. janúar en þá skilaði bæjarstjórnin skýrslu um fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins og tillögum sínum um fjárhagslegar aðgerðir.
Í bréfi EFS til ráðherra þann 4. febrúar síðastliðinn kemur fram að samkvæmt skýrslu bæjarstjórnar nema skuldir sveitarfélagsins í árslok 2009 um 3,1 ma. kr. og skuldbindingar vegna rekstrarleigusamninga og annarra langtímasamninga eru áætlaðar um 4,1 ma. kr. Er því gert ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar í árslok 2009 hafi numið rúmum 7,2 milljörðum króna. Skýrslan staðfestir því niðurstöðu EFS sem fram kom í úttektarskýrslu hennar frá því í desember sl.
Í bréfinu bendir EFS á að þrátt fyrir tillögur um hagræðingu í rekstri, auknar álögur, skuldbreytingu lána og niðurfellingu skuldbindinga í nokkrum mæli getur sveitarfélagið ekki skilað hallalausum rekstri eða staðið við skuldbindingar sínar. Til þess að gera sveitarfélagið rekstrarhæft þannig að það geti staðið við skuldbindingar telur EFS að sveitarfélagið þoli vart skuldir og skuldbindingar umfram 2,0 - 2,5 milljarða króna.
Þar sem sveitarfélagið er komið í greiðsluþrot og hefur þegar fengið fyrirframgreiðslur úr Jöfnunarsjóði til að greiða brýnustu útgjöld telur EFS mikilvægt að leitað verði varanlegra lausna á fjárhagsvanda sveitarfélagsins og að hafist verði handa við það verkefni þegar í stað. Því hefur nefndin lagt til, með vísan til 76. gr. sveitarstjórnarlaga, að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn sem hafi forystu um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins og leiti allra tiltækra leiða til lausnar á vandanum.
Jafnframt leggur nefndin til að gerður verði samningur um samskipti og verkaskiptingu fjárhaldsstjórnar og sveitarstjórnar um fjárhaldslegar aðgerðir á skipunartíma fjárhaldsstjórnar og bendir EFS á í því sambandi að starfsmenn sveitarfélagsins og sveitarstjórn hafa unnið gott verk við greiningu vandans og áætlanagerð sem ætti að nýtast í framhaldsvinnu þessa verkefnis.
Ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur kynnt tillögu EFS fyrir bæjarstjórn Sveitarfélagsins Álftaness, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og helstu lánadrottnum sveitarfélagsins.
Ráðherra hefur jafnframt kynnt sér þau gögn sem fyrir liggja og unnin hafa verið fyrir EFS, svo og skýrslu sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness og á grundvelli þeirra metið tillögur EFS um skipan fjárhaldsstjórnar.
Niðurstaða ráðherra með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til skilyrða sem tíunduð eru í 1. mgr. 76. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 um skipan fjárhaldsstjórnar, er sú að setja Sveitarfélaginu Álftanesi fjárhaldsstjórn.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjárhaldsstjórn skipuð þremur mönnum, þar af einum samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga en formaður er skipaður af ráðherra. Hlutverk fjárhaldsstjórnar er rakið í 78. gr. sveitarstjórnarlaga en samkvæmt henni tekur fjárhaldsstjórnin yfir stjórn fjármála sveitarfélags og má enga greiðslu inna af hendi úr sveitarsjóði nema með samþykki hennar. Ályktanir sveitarstjórnar og ákvarðanir lægra settra stjórnvalda hennar, sem hafa útgjöld í för með sér, eru ógildar nema til komi samþykki fjárhaldsstjórnar. Að öðru leyti fer sveitarstjórn áfram með málefni sveitarfélagsins.
Samkvæmt ákvörðun ráðherra, sem hefur þegar verið kynnt fulltrúum bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness, tekur fjárhaldsstjórn til starfa um leið og birting ákvörðunar hefur farið fram í Lögbirtingablaðinu og Stjórnartíðindum. Skipunartími hennar er til 1. ágúst 2010.
Fjárhaldsstjórn er þannig skipuð:
- Andri Árnason hrl, tilnefndur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
- Elín Guðjónsdóttir viðskiptafræðingur, tilnefnd af fjármálaráherra að ósk samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
- Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggur áherslu á gott og náið samstarf allra aðila sem mál þetta varðar og telur það vera forsendu fyrir því að árangur náist við fjárhagslega endurskipulagningu Sveitarfélagsins Álftaness. Ráðherra leggur til að gerður verði samningur um samskipti og verkaskiptingu fjárhaldsstjórnar og sveitarstjórnar um fjárhaldslegar aðgerðir á skipunartíma fjárhaldsstjórnar, sbr. tillögur EFS þar að lútandi.
Ljóst er að mikil íbúafjölgun í sveitarfélaginu síðustu ár hefur kallað á mikla uppbyggingu í þjónustu sveitarfélagsins. Þá hefur efnahagshrunið einnig komið hart niður á þessu sveitarfélagi. Ráðherra leggur því jafnframt áherslu á að við fjárhagslega endurskipulagningu sveitarfélagsins verði horft til þess að verja eins og kostur er grunnþjónustu við íbúa sveitarfélagsins og félagslega velferð þeirra.
Á blaðamannafundi í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem ráðherra tilkynnti ákvörðun sína sagði Pálmi Þór Másson bæjarstjóri að niðurstaða ráðherra kæmi ekki á óvart. Hann sagði Álftnesinga ekki munu finna fyrir stjórnkerfisbreytingu og sagði jafnframt mikilvægt að í samkomulagi sem gera ætti milli fjárhaldsstjórnar og bæjarstjórnar Álftaness verði samstarfið vel skilgreint.
Auk bæjarstjórans sátu fundinn með ráðherra Ólafur Nilsson, formaður eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, og starfsmenn ráðuneytisins sem sinna fjármálum sveitarfélaga.
Sjá sveitarstjórnarlög á vefsíðu Alþingis:
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1998045.html