Fjárhaldsstjórn tekur til starfa
Fjárhaldsstjórn fyrir Sveitarfélagið Álftanes hefur tekið formlega til starfa. Auglýsing um skipan fjárhaldsstjórnarinnar birtist í Stjórnartíðindum í gær.
Í fjárhaldsstjórn sitja: Andri Árnason, hrl. sem er formaður hennar, Elín Guðjónsdóttir viðskiptafræðingur og Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur. Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði stjórnina með vísan til fyrstu málsgreinar 76. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og fór þar að tillögu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.
Fjárhaldsstjórnin hittist í gær í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og átti hún í upphafi stuttan fund með ráðherra þar sem hann afhenti stjórnarmönnum skipunarbréf. Stjórnin ráðgerir einnig fund með sveitarstjórn Álftaness í vikunni. Skipunartími fjárhaldsstjórnarinnar er til 1. ágúst 2010.
Fjárhaldsstjórnin tekur við stjórn fjármála sveitarfélagsins og má enga greiðslu inna af hendi úr sveitarsjóði nema með samþykki hennar, segir meðal annars í 78. grein sveitarstjórnarlaganna. Þar segir einnig: ,,Fjárhaldsstjórn skal rannsaka fjárreiður sveitarfélagsins og allan rekstur þess og gera nýja áætlun um tekjur og gjöld sveitarfélagsins fyrir næstu tvö fjárhagsár."
Auglýsing í Stjórnartíðindum um skipan fjárhaldsstjórnar