Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2010 Matvælaráðuneytið

Fjárfestingarverkefni tengd orkufrekum iðnaði og raforkukerfinu

Fjárfestingar sem tengjast orkufrekum iðnaði og raforkukerfinu eru áætlaðar samtals um 400 milljarðar til ársins 2017, þar af um 265 milljarðar í ár og næstu þrjú ár. Áhrif þeirra á þróun efnahagsmála eru því mikil. Þá skiptir einnig máli að sú verðmæta sérþekking á rannsóknum og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa sem byggð hefur verið upp hér á landi á undanförnum áratugum er hjá stóru verkfræðistofunum og fyrirtækjum á borð við Jarðboranir og Íslenskar orkurannsóknir. Þessi mikilvægu fyrirtæki hafa brugðist við samdrætti með því að leita verkefna erlendis en hætta er á að ef lítil sem engin verkefni verða á þessu sviði hér innanlands á næstu árum þá hverfi þessi þekking og þar með samkeppnisforskot Íslands, úr landi.

Óvissa og erfiðar aðstæður til fjármögnunar hafa tafið ákvarðanir en mikilvægt er að ríkisstjórnin fái sem besta mynd af framgangi mála og er í því sambandi bent á mikilvægi verkefnisstjóra á hennar vegum.

Verkefnin sem um ræðir eru aukning á afkastagetu álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík og bygging Búðarhálsvirkjunar (80MW) á vegum Landsvirkjunar, bygging álvers Norðuráls í Helguvík, stækkun Hellisheiðarvirkjunar (90 MW) og bygging jarðvarmavirkjana í Hverahlíð (90 MW) og við Gráuhnjúka (45 MW)á vegum Orkuveitu Reykjavíkur, virkjanir á vegum HS Orku (Stækkur Reykjanersvirkjunar 80 MW, Eldvörp 50 MW og 1. áfangi í Krísuvík 50 MW), Suðvesturlínur á vegum Landsnets og ýmsar framkvæmdir á vegum Rarik og Jarðborana. Jarðboranir hf hafa nú þegar borað fyrir u.þ.b. 90 MW af þeirri raforku sem þarf til álversins í Helguvík. Í tölum um ársverk sem til verða er gert ráð fyrir vinnu verkfræðistofa og hönnuða en ekki er reiknað með afleiddum störfum svo áhrifin af fjárfestingunni á vinnumarkað eru mun meiri en fram kemur í tölunum hér á eftir. Á meðan byggingaframkvæmdum stendur má reikna með að afleidd störf séu um það bil eitt starf til viðbótar þeim störfum sem koma beint að framkvæmdunum. Þegar rekstur er hafinn er reiknað með tveim afleiddum störfum á hvert starf í væntanlegu iðjuveri. Samtals er gert ráð fyrir að fjárfesting í orkumannvirkjum nemi tæplega 160 milljörðum króna fram til 2017, þar af rúmir 126 milljarðar á þessu ári og næstu þremur árum. Ársverk við þessar framkvæmdir eru áætluð samtals um 4.700 til 2017, þar af tæplega 3.800 á þessu ári og næstu þremur árum. Við það bætast svo afleidd störf. Samtals er gert ráð fyrir að fjárfesting í iðjuverunum nemi um 238 milljörðum til ársins 2017, þar af kr. 138 milljarðar á næsta ári og næstu þremur árum. Ársverk við þessar framkvæmdir verða samtals tæplega 7.900 til ársins 2017, þar af rúmlega 4000 ársverk á næsta ári og næstu þremur árum. Við bætast svo afleidd störf.

Framkvæmdir við fyrirhugað álver í Helguvík eru bæði dýrasta og mannaflsfrekasta framkvæmdin og stendur ein og sér undir um 100 milljarðar fjárfestingu í ár og næstu þremur árum og um 3.200 ársverk á sama tíma auk afleiddra starfa. Uppbygging Landsnets á raforkukerfinu er áætluð um 22 milljarðar til ársins 2013 og um 350 ársverk á sama tíma auk afleiddra starfa.

Eins og áður segir eru hér aðeins teknar með þær framkvæmdir við orkuöflun fyrir álver í Helguvík, sem nú þegar hefur verið samið um milli aðila, og sagt er frá í frumvarpi til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík (lög nr. 51/2009). Þær framkvæmdir ná aðeins til um 325 MW af þeim 625 MW sem þarf að afla fyrir fullbyggt 360 þús. tonna álver í Helguvík.  Ráðgert er að frekari orkuöflun komi frá nýjum jarðvarmavirkjunum á Hellisheiði (135 MW) og við Krísuvík (200MW) sem nægir til að standa undir fullbyggðu álveri.

Súlurit um mannafla


 

 Fjárfesting

 

 

 

 

 

 

 

 


 

Önnur stór fjárfestingarverkefni

Gagnaver Verne Holdings á Reykjanesi

Alþingi er nú með til umfjöllunar heimildarlög um gerð fjárfestingarsamnings vegna uppbyggingar á gagnaveri á Ásbrú við Reykjanesbæ. Verne Holdings hafa nýlega fengið til liðs við sig fjárfestingarstjóðinn Wellcome Trust sem nýjan kjölfestufjárfesti og vonir eru bundnar við að framkvæmdir hefjist af fullum krafti. Samkvæmt mati KPMG er áætlað að um 270 störf verði til tengd uppbyggingunni og um 250 störf tengd rekstri gagnaversins.

Stærri framkvæmdir í samvinnu við lífeyrissjóði

Á vegum fjármálaráðuneytisins hefur starfshópur skoðað mögulega aðkomu lífeyrissjóða að fjármögnun stærri verkefna. Þar hefur einkum verið horft til framkvæmda vegna samgöngumannvirkja og uppbyggingar í ferðaþjónustu auk verkefna sem nú er að komast á framkvæmdastig. Forval vegna hugmyndasamkeppni um skipulag lóðarinnar við Hringbraut stendur yfir og stefnt er að því að framkvæmdir geti hafist næsta ár. Þá er unnið að undirbúningi samgöngumiðstöðvar við Hlíðarfót í Reykjavík auk þess sem framkvæmdir vegakafla á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi verða boðnar út á næstunni. Loks er að nefna uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða sem vikið er að hér að framan.

                                               *

Í  yfirlitinu hér að ofan er stuðst við áætlanir frá fyrirtækjunum sjálfum miðað við að þær nái fram að ganga. Aðeins er reiknað með raforkuöflun sem samið hefur verið um milli aðila fyrir 1. og 2. áfanga álvers í Helguvík Það er sama forsenda og liggur til grundvallar þjóðhagsspám Seðlabanka og fjármálaráðuneytis um hagvöxt, atvinnuleysi og tekjur hins opinbera.

 

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta