Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2010 Matvælaráðuneytið

Fréttatilkynning frá iðnaðarráðherra

Ríkisstjórnin fjallaði í dag um tillögur iðnaðarráðherra um margvíslegar aðgerðir í atvinnu- og nýsköpunarmálum. Eigið fé Byggðastofnunar verður aukið um 3.6 milljarða í því skyni að stuðla að atvinnuuppbyggingu. Stefnt er að því að þegar á þessu ári verði 500 – 700 milljónir króna tiltækar til uppbyggingar fjölsóttra ferðamannastaða á landinu. Lánatryggingasjóður kvenna tekur til starfa á ný. Undirbúningur er hafinn að því að koma á fót sérstökum fjárfestingarsjóði fyrir svokallaða viðskiptaengla sem vilja leggja fjármuni í viðskiptahugmyndir og uppbyggingu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Stefnt er að því að koma á nýju fyrirkomulagi lánatrygginga vegna uppbyggingar og verðmætasköpunar frumkvöðla. Nýsköpunarmiðstöð er að ýta úr vör verkefninu Viðhald og verðmæti sem unnið er í samvinnu við Íbúðalánasjóð, iðnaðarmenn í héraði og byggingarefnasala. Stofnaður verður nýsköpunarsjóður framhaldsskólanema. Þrjú ný frumkvöðlasetur eru á döfinni.

Ríkisstjórnin setur atvinnumál og rekstrarumhverfi atvinnulífs í forgang á næstu mánuðum jafnt í almennum sem sértækum aðgerðum. Veigamesta almenna aðgerðin er að tryggja framgang áætlunarinnar um endurreisn efnahagslífsins, sem skapar svigrúm til hraðari lækkunar vaxta, afnáms gjaldeyrishafta í áföngum, bætt skilyrði til fjárfestinga og hagvaxtar.

Sérstök áhersla er lögð á leiðir til að fjármagn sem til er í fjármálastofnunum og víðar nýtist til verðmæta- og atvinnusköpunar auk þess sem sköpunarkraftur Nýsköpunarmiðstöðvar er nýttur til hins ítrasta.

Næstu skref í atvinnumálum

  • Á vettvangi ríkisstjórnarinnar verði efld yfirsýn yfir aðgerðir ráðuneyta, stofnana, aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóða í atvinnumálum og greitt fyrir framgangi fjárfestingarverkefna.
  • Strax frá upphafi undirbúnings að fjárlagagerð næsta árs verði gætt að áhrifum á atvinnulífið og möguleikum til verðmæta- og atvinnusköpunar.
  • Opið vinnuferli Sóknaráætlunar 20/20 verði nýtt í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð og Hugmyndaráðuneyti til að safna markvisst hugmyndum um leiðir til að skapa störf. Iðnaðarráðherra felur Nýsköpunarmiðstöð útfærslu.
  • Vinnuhópur um aðkomu lífeyrissjóða að stórframkvæmdum útfæri stofnun sérstaks sjóðs sem í renni þau gjöld sem lögð verða á erlenda ferðamenn og eiga að standa undir uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða á Íslandi. Markmiðið er að þegar á þessu ári verði tiltækar á bilinu 500 til 750 milljónir króna til slíkra uppbyggingarstyrkja.
  • Skipaður verði vinnuhópur Nýsköpunarmiðstöðvar, iðnaðarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis sem skili fljótlega tillögum um hvernig bæta megi skilyrði til að stofna og reka smáfyrirtæki, m.a. með því að huga að fyrirkomulagi lánatrygginga vegna uppbyggingar og verðmætasköpunar frumkvöðla.
  • Lánatryggingasjóður kvenna taki til starfa á ný. Bráðabirgðastjórn sjóðsins skipuð fulltrúum iðnaðarráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar ljúki uppsetningu sjóðsins og fyrirkomulagi.
  • Iðnaðarráðherra felur Nýsköpunarmiðstöð að leita samstarfsaðila til að koma á fót sérstökum fjárfestingarsjóði fyrir svokallaða viðskiptaengla sem vilja leggja fjármuni í viðskiptahugmyndir og uppbyggingu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Leitað verði samstarfs við Hugmynda­ráðuneytið og aðra aðila.
  • Iðnaðarráðherra felur Nýsköpunarmiðstöð að koma á formlegu stefnumótatorgi viðskiptaengla og frumkvöðla þar sem til verður gagnagrunnur um viðskiptahugmyndir og komið á tengslum þeirra og áhugasamra fjárfesta sem vilja og geta veitt þeim brautargengi.
  • Nýsköpunarmiðstöð er að ýta úr vör verkefninu Viðhald og verðmæti sem unnið er í samvinnu við Íbúðalánasjóð, iðnaðarmenn í héraði og byggingarefnasala. Farið verður um landið, kennt viðhald mannvirkja, rætt um brýn verkefni, undirbúning þeirra og fjármögnun og loks framkvæmt með iðnaðarmönnum á staðnum. Reiknað er með allt að 500 verkefnum.
  • Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samráði við Sorpu og tengda aðila vinnur nú að áætlun um gerð eldsneytis úr sorpi sem til fellur á Reykjavíkursvæðinu. Hugmyndin myndi svara kalli nýrra tíma varðandi breytingar á sorpurðun. Hún felur í sér að umbreyta sorpi í eldsneyti með því að nota háhitagösun og efnaferla er leiða munu til framleiðslu svokallaðs FT dísils. Slík verksmiðja myndi anna sorpeyðingu 160 þúsund tonna á ári og framleiða nægt eldsneyti til að knýja fólksbíla í Reykjavík.
  • Iðnaðarráðherra felur Nýsköpunarmiðstöð að hafa frumkvæði að stofnun Nýsköpunarsjóðs framhaldsskólanema í samvinnu við menntamálaráðuneytið og aðra hagsmunaaðila og mun leggja sjóðnum til 5 milljónir króna á þessu ári. Markmiðið er að í samvinnu við hagsmunaaðila í atvinnulífinu fái nemendur tækifæri til að vinna að nýsköpunarhugmyndum sem hægt er að þróa í verknámsaðstöðu framhaldsskólanna á sumrin. Nemendur fái tækifæri í sumarleyfum að vinna að útfærslum og framleiðslu undir handleiðslu verknámskennara og í samvinnu við fyrirtæki. Þarna kynnast nemendur ekki aðeins verknámi heldur einnig nýsköpunarvinnu auk þess sem dregið er úr atvinnuleysi skólafólks.
  • Nýsköpunarmiðstöð vinnur að opnun FabLab í Skagafirði og undirbúningur er hafinn á Akranesi. FabLab stendur fyrir Fabrication Laboratory og er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Uppruni þess er við MIT tækniháskólann í Boston og er Nýsköpunarmiðstöð í samvinnu við skólann. Áhersla er lögð á að FabLab verði opnað í Reykjavík þar sem reynt verði að ná til ungra atvinnulausra svo hæfni þeirra sé virkjuð og þau þar með búin undir þátttöku í atvinnulífinu að nýju. Heildarfjöldi nemenda í FabLab á árinu gæti verið um 1000.
  • Nýsköpunarmiðstöð stefnir að opnun frumkvöðlasetursins Álheima á Austurlandi í samvinnu við Alcoa, Atvinnuþróunarfélag Austurlands og verkfræðistofuna HRV ásamt starfsgreinafélaginu AFL. Stefnt er að því að þar verði aðstaða fyrir um tug fyrirtækja með um 30 starfsmenn samtals sem vinna úr áli eða koma nærri efnistækni áls.
  • Nýsköpunarmiðstöð er að móta verkefni í samvinnu við Ríkiskaup þar sem opinber innkaup er nýtt sem hvatning til nýsköpunar og þróunar. Opinber innkaup eru um 30% af fjárlögum ríkisins og með því að leita leiða til að sameina sparnað og nýsköpun má hvetja til nýrra vöru- og þjónustulausna. Þegar er verið að skoða möguleika á innlendri framleiðslu á afar dýrri vöru sem mikið er flutt inn af fyrir heilbrigðisgeirann.
  • Undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hefjast í vor. Um er að ræða framkvæmd fyrir um 600-800 millj. kr. og er gert ráð fyrir að hún skapi 30-40 störf.
  • Á grundvelli viljayfirlýsingar sem undirrituð var sl. haust er unnið að atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum sem byggir á nýtingu orkuauðlinda á svæðinu. Verkefnið er í höndum sérstakrar verkefnisstjórnar sem í eiga sæti fulltrúi iðnaðarráðherra, sveitarfélaga á svæðinu og Landsvirkjunar.
  • Alþingi hefur samþykkt að auka eigið fé Byggðastofnunar um 3,6 milljarða sem eykur getu stofnunarinnar til að styðja við atvinnuuppbyggingu með lánum. Iðnaðarráðherra felur stjórn stofnunarinnar að skila tillögum um áherslur í útlánum með það að markmiði að hámarka verðmætasköpun og fjölda starfa til frambúðar.

Reykjavík 12. febrúar 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta