Störfum fjölgar í upplýsinga- og hátækni
Upplýsingar um ný störf sem eru að verða til í hátækni- og nýsköpunarfyrirtækjum og hjá skapandi greinum gefa góða vísbendingu um endurnýjarþrótt atvinnulífsins og getu til að skapa störf á nýjum sviðum í stað þeirra sem tapast í öðrum greinum. Tölvuleikjaiðnaðurinn, sem er ný atvinnugrein á Íslandi, hefur vaxið hratt, bæði í veltu og mannafla, auk þess sem nýtt alþjóðlegt fyrirtæki á sviði stafrænnar myndvinnslu fyrir kvikmyndir hefur opnað vaxandi starfsstöð á Íslandi. Lausleg könnun meðal nokkurra fyrirtækja auk upplýsinga frá Nýsköpunarmiðstöð um fjölda starfa í frumkvöðlasetrum og með átakinu Starfsorka, leiðir í ljós að yfir 500 ný störf hafa orðið til frá því haustið 2008.
Sama vísbending birtist í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands en þar fjölgar störfum í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi um 14% frá 4. ársfjórðungi 2008 til 4. ársfjórðungs 2009. Að jafnaði fækkaði störfum um 5% á sama tíma.
Til að geta metið árangur frekari aðgerðir á borð við eflingu stoðkerfis atvinnulífsins, úthlutunanir úr samkeppnissjóðum eða áhrif laga um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar eða fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum, þarf að fá haldbetri tölulegar upplýsingar um þennan geira. Iðnaðarráðuneytið vinnur nú að því í samvinnu við Samtök iðnaðarins og Hagstofuna að fá reglulegar upplýsingar um fjölda starfa í nýsköpunarfyrirtækjum.
Reykjavík 12. febrúar 2010