Fundað um Icesave í Lundúnum
Fréttatilkynning nr. 5/2010
Samninganefnd íslenskra stjórnvalda átti í dag fund með fulltrúum breskra og hollenskra stjórnvalda í Lundúnum. Á fundinum kynnti samninganefndin tillögur til lausnar Icesave-málsins, sem byggja á samkomulagi stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka á Alþingi.
Fyrir samninganefndinni fer bandaríski lögfræðingurinn Lee Buchheit. Auk hans skipa nefndina Guðmundur Árnason og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjórar fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, ásamt Jóhannesi Karli Sveinssyni lögmanni og Lárusi Blöndal lögmanni, sem tilnefndur er af stjórnarandstöðuflokkunum sameiginlega. Þeim til ráðgjafar eru Don Johnston, fyrrverandi framkvæmdastjóri OECD, auk sérfræðinga ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint og lögfræðistofunnar Ashurst.
Aðilar eru í framhaldi af fundinum að meta stöðuna.
Fjármálaráðuneytinu, 15. febrúar 2010