Dómsmálaráðherra flutti erindi um skipun dómara og nýtt frumvarp á hátíðarmálþingi Orators
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra flutti í dag erindi um nýjar reglur um skipun dómara og nýtt frumvarp þess efnis á hátíðarmálþingi Orators, félags laganema, sem tileinkað var 90 ára starfsafmæli Hæstaréttar Íslands. Ingibjörg Benediktsdóttir, forseti Hæstaréttar, flutti einnig ávarp í tilefni afmælisins og Jakob R. Möller hæstaréttarlögmaður hélt erindi undir heitinu Stormur tíðarinnar: Hæstiréttur og samfélagið. Málþingið fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands. Fundarstjóri var Hjalti Geir Erlendsson, stud. jur.
Í erindi sínu sagði ráðherra meðal annars frá frumvarpinu um breytingu á reglum um skipun dómara. Frumvarpið hefur verið kynnt ríkisstjórn og sent stjórnarflokkum til umsagnar. Frumvarpið var samið af réttarfarsnefnd en það byggir á tillögum nefndar sem skipuð var í mars 2009. Í þeirri nefnd sátu Guðrún Erlendsdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem var jafnframt formaður nefndarinnar, Hákon Árnason hæstaréttarlögmaður og Ómar Hlynur Kristmundsson stjórnmálafræðingur og dósent við Háskóla Íslands. Samhliða nefndinni var skipaður samráðshópur sem í sátu fulltrúar ASÍ, BHM, BSRB, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.
Ragna ræddi helstu breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir, svo sem að dómnefnd meti hæfni allra umsækjenda um dómaraembætti hvort sem um er að ræða embætti hæstaréttardómara eða héraðsdómara. Gert sé ráð fyrir að óheimilt verði að skipa mann í dómaraembætti sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Þó megi víkja frá þessari reglu ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um að skipa annan umsækjanda. Þá sé í frumvarpinu lagt til að fjölgað verði í dómnefndinni sem metur hæfni umsækjenda og þar verði meðal annarra fulltrúi almennings sem verði kosinn af Alþingi auk þess sem Lögmannafélag Íslands og dómstólaráð tilnefna menn í nefndina.