Meira en helmingur þeirra sem fluttu frá Íslandi árið 2009 var erlendir ríkisborgarar
Tæplega 5.780 manns fluttust til Íslands frá öðrum löndum árið 2009. Brottfluttir voru þó mun fleiri en aðfluttir og nam fólksfækkunin 4.835 manns. Meira en helmingur þeirra sem fluttu frá landinu var erlendir ríkisborgarar samkvæmt gögnum Hagstofunnar.
Um 17.000 erlendir ríkisborgarar voru á íslenskum vinnumarkaði árið 2007
Í frétt frá Hagstofunni í morgun kemur fram að aldrei hafi jafn margir flutt frá landinu á einu ári og að næstmestur brottflutningur fólks hafi átt sér stað árið 1887 þegar landsmönnum fækkaði um 3,1% á móti 1,5% árið 2009. Út frá einfaldri tölfræði eru þetta réttar upplýsingar en þegar upplýsingarnar eru greindar sést fljótt að þessi samanburður varpar engu ljósi á núverandi stöðu og þróun búferlaflutninga. Skiptir þar mestu hve mikill fjöldi erlendra verkamanna var við störf hér á landi á þenslutímabilinu 2005–2008. Á seinni hluta ársins 2007 voru um eða yfir 17.000 erlendir ríkisborgarar á íslenskum vinnumarkaði eða um 9% af heildarfjöldanum. Á þessum tölum sést glöggt hve hreyfanleiki vinnuafls innan Evrópska efnahagssvæðisins er mikill. Til að mynda fjölgaði erlendum starfsmönnum í mannvirkjagerð um 210% frá árslokum 2005 fram í september 2007 og um 100% í öðrum iðnaði. Af fólki með erlent ríkisfang sem flutti til Íslands á árunum 2005–2009 voru karlar tæplega 21.000 en konur um 11.000.
Búferlaflutningar fólks með íslenskt ríkisfang
Árið 2009 fluttu um 5.780 manns til Íslands. Þetta eru mun færri en fluttu til landsins árið áður en engu að síður hafa aldrei fleiri flust til landsins ef frá eru talin árin 2005–2008. Íslendingar sem fluttu heim frá útlöndum voru 2.385 árið 2009 en brottfluttir Íslendingar voru um 4.850. Brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta voru því 2.465.
Búferlaflutningar fólks með erlent ríkisfang
Árið 2009 fluttu um 3.390 erlendir ríkisborgarar til Íslands frá öðrum löndum. Erlendir ríkisborgarar sem fluttu frá landinu voru um 5.760. Brottfluttir erlendir ríkisborgarar umfram aðflutta voru því um 2.370. Ef skoðuð er kynjaskipting brottfluttra umfram aðflutta kemur í ljós að karlar voru 3.690 á móti tæplega 1.150 konum. Pólverjar eru stór hluti þessa hóps, en brottfluttir Pólverjar umfram aðflutta árið 2009 voru um 1.580.