Áhyggjur af hækkun tryggingargjalds
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Viðskiptaþingi á Hótel Nordica í dag að samvinna ríkisstjórnar og atvinnulífsins væri lykilatriði í endurreisn efnahagslífsins. Hún hvatti viðskiptaþingsgesti til þess að taka hraustlega á í því að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja og sagði kveða við nýjan tón í samþykktum og skýrslum Viðskiptaráðs. Hún vildi að fram færi alvarleg umræða um margt í framkomnum skattatillögum ráðsins, og sagðist hafa sérstakar áhyggjur af því að hækkun tryggingargjaldsins gæti haft neikvæð áhrif á möguleika smærri fyrirtækja.
Forsætisráðherra lýsti yfir því að hann væri algerlega mótfallinn því að stjórnmálamenn handstýrðu fjármálakerfinu. Slík handstýring væri nú talin upphafið að bankahruninu og gera þyrfti ítarlega rannsókn á þeim afdrifaríka kafla í sögu fjármálakerfis þjóðarinnar. Það særði siðferðiskennd almennings þegar persónur og leikendur úr bankahruninu væru á ný að taka að sér hlutverk í atvinnulífinu, og eins þegar fregnir bærust af launakjörum í ætt við ofurlaun. Hún væri hins vegar sannfærð um að með sameinuðu átaki Samkeppniseftirlits, Fjármálaeftirlits, Bankasýslu og Eftirlitsnefndar með skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja yrði hægt að sjá svo um að samræmdu regluverki yrði framfylgt við skuldaaðlögunina þar sem allt væri gegnsætt og skráð. Eftirlitsnefndin myndi skila stjórnvöldum skýrslu 1. mars nk. og þá yrði eigendastefna ríkisins gagnvart bönkunum endurskoðuð og verklagsreglur yfirfarnar.
“Það skiptir miklu að lífvænlegum fyrirtækjum verði skapaður rekstrargrundvöllur með afskriftum skulda þegar það er atvinnulífi og neytendum til hagsbóta. Endurskipulögð fyrirtæki á svo fljótt sem auðið er að selja í opnu og gagnsæju ferli og þar er skráning í kauphöll góður kostur,” sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra m.a. á Viðskiptaþingi.
Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur í heild sinni.
Reykjavík 17. febrúar 2010