Nr. 10/2010 - Nefnd skilar skýrslu um notkun og varðveislu ræktanlegs lands á Ísland
Nefnd sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði 29. desember 2008 til þess að taka til athugunar notkun og varðveislu ræktanlegs lands á Íslandi hefur lokið störfum. Skýrsla nefndarinnar var afhent Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þann 16. febrúar sl. Formaður nefndarinnar var Þórólfur Halldórsson. Auk hans áttu sæti í nefndinni þau Drífa Hjartardóttir, Eiríkur Blöndal, Ólafur Eggertsson og Jón Geir Pétursson. Ritari nefndarinnar var Arnór Snæbjörnsson, starfsmaður ráðuneytisins.
Í skýrslu nefndarinnar, sem finna má í viðhengi, er fjallað um fæðuöryggi á heimsvísu sem og hér á landi. Gerð er grein fyrir landbúnaðarframleiðslunni í landinu, þróun hennar og þýðingu fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Því næst er tekið til athugunar hvað sé til mikið af góðu ræktunarlandi á Íslandi. Birtar eru nýjar upplýsingar um gróðurfar landsins og stærð ræktaðs og ræktanlegs lands. Fjallað er um framkvæmdir sem fela í sér varanlega ráðstöfun á ræktunarlandi eða ráðstöfun til langs tíma. Þar koma m.a. fram upplýsingar um aukningu frístundabyggðar og tíðari skipti á landi jarða í völdum sveitarfélögum á síðustu árum. Einnig er fjallað um náttúruvernd, umhverfisvernd, vegalagningu, skógrækt, byggðarþróun, vernd votlendis o.fl. Fjallað er um skipulags- og byggingarlög og skipulagsáætlanir. Tekin eru dæmi af skipulagsáætlunum tveggja sveitarfélaga. Því næst er fjallað um jarða- og ábúðarlög. Til samanburðar eru rakin ákvæði norskra, danskra og færeyskra laga sama efnis.
Það er mat nefndarinnar að forsenda fæðuöryggis og þróunarmöguleika íslensks landbúnaðar til langrar framtíðar litið, sé að land sé aðgengilegt til matvælaframleiðslu. Tillögur nefndarinnar beinast síðan að ýmsum verkefnum sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
- Nefndin telur rétt að skoðað verði heildstætt yfir landið hvernig tekið er á stefnumörkun varðandi landnotkun á landbúnaðarsvæðum í skipulagsáætlunum. Fylgjast verði vel með landnotkun og þróun hennar hér á landi, sérstaklega hvað varðar skiptingu jarða og nýtingu þeirra.
- Nefndin telur rétt að stjórnvöld hrindi af stað stefnumótun um hvernig fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt til framtíðar.
- Nefndin telur að athuga þurfi starfsskilyrði akuryrkjunnar svo að tryggja megi að innlend framleiðsla geti þróast og aukist.
- Nefndin telur að nýta verði betur fyrirliggjandi upplýsingar um stærð góðs ræktunarlands hér á landi, um leið og nýrra upplýsinga verði aflað. Nauðsynlegt sé að efla og samhæfa rannsóknir á þessum sviðum svo að þekking verði aukin á eiginleikum landsins, ekki síst á einstökum svæðum. Gera þurfi staðal fyrir gott ræktunarland sem nýst geti við skipulagsgerð.
- Nefndin telur að skógrækt sé ekki jafn varanleg ráðstöfun á landi og sú sem felst t.d. í þéttbýli eða vegalagningu, þó í henni felist ráðstöfun á landi til mjög langs tíma.
- Nefndin telur mikilvægt að skipulag og nýting ræktanlegs lands sé reist á viðmiðum sjálfbærrar þróunar. Við akuryrkju þarf að taka tillit til jarðvegsverndar og skipuleggja ræktunina þannig að komið verði í veg fyrir rof og uppblástur jarðvegs við meðhöndlun lands.
- Nefndin telur að við ráðgerða endurskoðun jarðalaga verði að athuga samspil þeirra við skipulagslög.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,
17. febrúar 2010
Afhending skýrslunnar: Á myndinni eru, frá vinstri: Arnór Snæbjörnsson ritari nefndarinnar, Drífa Hjartardóttir, Þórólfur Halldórsson, Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Eiríkur Blöndal, Jón Geir Pétursson. Á myndina vantar Ólaf Eggertsson.