Íslensk stjórnvöld mótmæla fundi hluta Norðurskautsráðsins í Kanada
Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt fundi fimm aðildarríkja Norðurskautsráðsins sem fyrirhugaður er í Kanada í mars, án þátttöku Íslands, Svíþjóðar og Finnlands. Hafa þau alfarið lagst gegn því að gerður sé greinarmunur á aðildarríkjum Norðurskautsráðsins með þessum hætti og telja að slík viðleitni veiki ráðið. Formlegum mótmælum hefur verið komið á framfæri við öll ríkin fimm sem að fundinum standa.
Ríkisstjórn Kanada hefur boðað til fundar utanríkisráðherra fimm strandríkja Norðurskautsráðsins (Rússlands, Danmerkur (v. Grænlands), Noregs og Bandaríkjanna) í undanfara G8 fundarins sem haldinn verður í Gatineau, Quebec 29. - 30. mars nk. Er þetta í annað sinn sem þjóðirnar fimm hittast utan hins hefðbundna vettvangs Norðurskautsráðsins en sumarið 2008 áttu þær fund á Grænlandi. Íslendingar, Svíar og Finnar mótmæltu því einnig þá að vera ekki boðið á fundinn.
Norðurskautsráðið hefur sterka stöðu á heimsvísu varðandi málefni norðurslóða. Hagsmunir Íslands sem strandríkis, sem reiðir afkomu sína á náttúrugæði hafsins, eru nátengdir málefnum Norður-Íshafsins. Íslensk sjórnvöld leggja áherslu á að málefni Norður-Íshafsins verði til umfjöllunar á fundum Norðurskautsráðsins.