Nr 11/2010 - Úttekt Alþjóðahafrannsóknaráðsins á nýtingarstefnu fyrir þorsk
Þann 20. janúar sl. barst sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóni Bjarnasyni, hjálagt svar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem íslenska Hafrannsóknarstofnunin á aðild að, þar sem gerð er grein fyrir úttekt sérfræðinganefndar sem kölluð var sérstaklega til að taka út nýtingarstefnu þá sem Hafrannsóknastofnunin lagði til vorið 2009 að fylgt verði á næstu fimm árum. Í svari ICES kemur m.a. fram það álit á mati Hafrannsóknastofnunarinnar, að þessi nýtingarstefna muni leiða til þess, með yfirgnæfandi líkum, að hrygningarstofnar þorsks fari vaxandi og verði stærri árið 2015 en þeir voru í ársbyrjun 2009. Jafnframt kemur fram að nýtingarstefnan sé í samræmi við alþjóðleg varúðarsjónarmið og viðmið um afrakstur fiskistofna sem leiði til betri afkomu til lengri tíma litið.
Endurskoðuð nýtingarstefna fyrir þorsk sem mörkuð var árið 2007, þar sem gert var ráð fyrir að nýtingarhlutfall þorsks sé 20% af viðmiðunarstofni (4ra ára og eldri fiskur) hefur framangreint að leiðarljósi, en markmiðið var aukin nýliðun og sjálfbærni þorskstofna. Að fá jákvætt álit utanaðkomandi aðila á að sú stefna sem mörkuð er, sé líkleg til að skila árangri og settum markmiðum, er út af fyrir sig eftirsóknarvert. Krafa markaðanna í dag er vissa um að stjórnvöld vinni eftir bestu getu að því að ná markmiðum sjálfbærni og viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika. Sterkar líkur eru á að álit Alþjóðahafrannsóknaráðsins hafi markaðslegt gildi fyrir seljendur íslenskra þorskafurða.
Eins og áður sagði, segir álit ICES að mörkuð stefna út frá gefnum forsendum sé líkleg til árangurs.Ennfremur er bent á mikilvægi stefnufestu, en undan því verður jafnframt ekki skorast að mati ráðuneytisins, að fylgst sé vel með þróuninni og aflað stöðugt meiri þekkingar á vistfræðilegri fiskveiðistjórnun. Ekki getur ríkt nein kyrrstaða á þessu sviði frekar en öðrum. Komi fram nýjar upplýsingar verða stjórnvöld líkt og ætíð að geta brugðist við. Þetta á ekki hvað síst við nú vegna hinna miklu vistkerfisbreytinga, m.a. vegna hlýnunarinnar sem á sér stað í hafinu í kringum landið. Í álitinu bendir ICES einmitt á að það myndi stykja grunninn enn betur að horfa til fleiri þátta við frekara mat og stefnumótun.
Ákvarðanir um mótun aflareglu fyrir fleiri fiskitegundir liggja ekki enn fyrir að hálfu ráðuneytisins. Lögð er áhersla á að aukin reynsla þurfi að komast á nýtingaarstefnu þorsksins og samspil ólíkra tegunda í vistkerfinu. Það er mat sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, að hin svokallaða fjölstofnaumræða þurfi að þroskast frekar. Jafnframt gefa hinar áðurnefndu öru breytingar í lífríkinu, ásamt viðbótarþekkingu sem aflað er á hverjum tíma, full rök til þess að undirbyggja vel hvert skref í þessum efnum.
Stefna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, miðast við að unnt verði að auka aflaheimildir með sjálfbærum hætti og á fjölþættum vistfræðilegum grunni á komandi árum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,
18. febrúar 2010
Letter_to_Iceland_concerning_Icelandic_request_on_evaluation_on_Icelandic_cod_management_plan